Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:00]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að sú stefna sem kom hér fram sé engan veginn á kostnað neinna annarra greina. Það er auðvitað mjög mikilvægt að sjálfstæði háskóla sé tryggt og að hugmyndir um verkefni, námsbrautir og þess háttar komi frá skólunum sjálfum og það hefur alltaf verið gert. Ég held að dæmið sem hv. þingmaður kemur hér inn á hafi kannski líka verið út af því að það var engin sérstök sýn, bara einhver sýn um af hverju svona margir nemendur voru í viðskiptafræði. Var einhver ákvörðun tekin? Ég minnist þess ekki að nein ákvörðun hafi verið tekin í fjármálaáætlun eða hjá stjórnvöldum um að mennta svo marga í þessum greinum sem hún nefndi. En hver er svo staðan? Jú, 25% af þeim háskólamenntuðum atvinnulausum síðustu 15 ár hafa verið viðskiptafræðingar. En var ákvörðun tekin? Nei, þvert á móti, það var einmitt ekki nein ákvörðun tekin. Það var engin stefna og sýn eða gætt að því hvernig við ætluðum að mennta til lengri tíma og hver væri færnisspá til lengri tíma. Það þarf að spyrja hverjar eru áskoranir samfélagsins, hvort sem við lítum til heilbrigðisvísinda eða stækkandi atvinnugreina eða bara félags- og hugvísinda, sem eru auðvitað gríðarlega mikilvægar.

Stefna stjórnvalda á að birtast í fjármálaáætlun, í fjárlögum og settum lögum um háskóla. En það eru háskólarnir sjálfir sem hafa síðan algjört frelsi til að velja sér viðfangsefni, koma með viðfangsefnin þar sem fara síðan fram rannsóknir og hagnýting þeirra samhliða mjög mikilvægri þátttöku við aðra skóla og alþjóðlegt samstarf. Ég held að þar greini okkur hv. þingmann ekki á um mikilvægi þess að styrkja þverfaglega samvinnu allra námsgreina til að byggja upp hæfni nemenda á öllum sviðum og í öllum greinum og til að mæta áskorunum samtímans. Þannig að ég held að hraðar breytingar í samfélaginu kalli einfaldlega á það að við ræðum menntamál af meiri festu og ákveðni, að við ræðum áherslur stjórnvalda hvort sem litið er til þessara vísinda- og heilbrigðisgreina eða aftur á móti félags- og hugvísinda (Forseti hringir.) og setji háskóla- og menntamál og gæði þeirra betur á dagskrá.