Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:05]
Horfa

háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Það er rétt, ég held að það sé sameiginlegt áhugamál okkar beggja hvernig við getum farið betur með almannafé og það er mjög margt sem er í gangi í ráðuneytinu, eins og hv. þingmaður nefnir, hvort sem það er verið að ræða sjóðina og endurskoðun þar sem þarf að vera eða bara innleiðing nýsköpunar í heilbrigðiskerfið sem ég gæti trúað að geti bætt rekstur þess verulega. Þegar við skoðum áskoranir nýsköpunarfyrirtækja í dag er bent á ýmsa þætti. Þegar ég tók við embætti þá var helsta áskorunin mannauður. Þau sögðu: Okkur vantar einfaldlega fólk til að geta stækkað á Íslandi af því að við viljum stækka á Íslandi. Hvað höfðu íslensk stjórnvöld gert fram að því? Hver var áskorunin nokkrum árum áður? Það var fjármagn og samkeppnishæfni í endurgreiðslum vegna rannsókna og þróunar og fjármagn í sjóðina. Við stigum stór skref í þá átt að styðja við nýsköpun í rannsóknum og þróun sem og í sjóðaumhverfinu þannig að fyrirtækin sögðu þegar ég tók við: Nú vantar okkur fólk svo að við getum valið að vera á Íslandi. Og viti menn: Hvað hefur ríkisstjórnin gert? Hún hefur stórauðveldað alþjóðlegum sérfræðingum að koma til Íslands og við höfum séð frumvörp frá félagsmálaráðherra og dómsmálaráðherra núna sem uppfylla þá sýn sem ég setti fram um hraðleið fyrir erlenda sérfræðinga og að gera það samkeppnishæft fyrir erlenda nemendur að vera hér lengur eftir nám. Íslenskir fjárfestar hafa verið duglegir að fjárfesta í nýsköpun, burt séð frá því hver gjaldmiðillinn er og hvort sem við horfum á stækkun stórra fyrirtækja eins og Marels, Össurar, CCP eða á fyrirtæki í sjávarútvegi og félög sem eru í alþjóðlegri starfsemi, þá sjáum við að við erum með fyrirtæki sem standast gríðarlega samkeppni og eru í alþjóðlegri samkeppni. Ný fyrirtæki eins og Controlant og Sidekick Health hafa séð tækifæri í því og hafa einmitt getað gripið tækifærin í því að vera á Íslandi og þar held ég að áhyggjur þeirra séu ekki gjaldmiðillinn.