Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:28]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Viðari Eggertssyni fyrir umræðuna hér í dag. Það eru um 1.500 manns sem bætast við árlega í hóp eldra fólks. Fjölgunin hefur verið um 3–4% á ári undanfarin ár. Það ánægjulega, sem ég held að við getum öll glaðst yfir, er að lífeyrissjóðakerfið okkar er að verða sterkara og sterkara og er í raun að standa undir stærri hluta af þeim greiðslum sem koma til eldra fólks heldur en hefur verið. Þannig er fjöldi eldra fólks á árinu 2022 eitthvað um 44.000.

Varðandi þær spurningar sem hv. þingmaður nefndi hér og snúa að afkomu eldra fólks þá þekkjum við að greiðslukerfinu var breytt 2017 sem hafði mjög jákvæð áhrif á afkomu eldra fólks. Við höfum verið að hækka frítekjumark atvinnutekna í áföngum, árið 2018 og síðan aftur 2022, og er það komið upp í 200.000. Það sem mest hefur verið rætt um er samt hvort ekki megi láta hækkanir koma til hvað varðar almenna frítekjumarkið, ekki síst vegna þess að það nýtist kannski fleirum heldur en frítekjumark atvinnutekna. Nefnd er núna að störfum í ráðuneyti mínu, með fulltrúum fjármála- og innviðaráðuneytisins, sem er ætlað að koma með tillögur um það sem snýr að þeim þætti stjórnarsáttmálans sem fjallar um afkomu eldra fólks, sveigjanleg starfslok og húsnæðismál. Ég vonast til þess að fá tillögur frá henni síðar á þessu ári.