Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:31]
Horfa

Viðar Eggertsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir góð svör, þó að mig vanti enn þá svarið við síðustu spurningunni um hvernig eigi að mæta þeirri vísitöluhækkun sem varð raunverulega á þessu ári og var undir áætlun í fjárlagafrumvarpi síðasta árs. Lagabreytingarnar á almannatryggingum sem tóku gildi 1. janúar 2017 miðuðust við að fólk yrði æ sjálfbærara þegar það kæmi á efri ár vegna uppsöfnunar á réttindum úr lífeyrissjóðum? Þá þegar var vitað að það yrði almennt ekki raunveruleikinn fyrr en sirka 20 árum síðar. Yfirvöld hafa samt látið sem svo að þetta sé raunveruleikinn þegar í dag og er það grunnurinn, að því er best verður séð, að upphæðum fjármálaáætlunarinnar í þessum málaflokki. En þetta er fjarri öllum raunveruleika og með þessari ásköpuðu og meðvituðu blindu ríkisstjórnarinnar hefur stærsti hópur lífeyristaka gleymst, sá hópur sem þegar er að taka lífeyri og hefur jafnvel gert í áratugi, eins þeir sem eru nú að komast á lífeyrisaldur sem og næstu 15–20 ár. Það er nefnilega langt í frá að allir lífeyristakar eigi og muni eiga umtalsverð sjálfbær réttindi í lífeyrissjóðum. Ríkisstjórnin verður að bregðast við því strax, hætta að setja kíkinn fyrir blinda augað og horfast í augu við það að þúsundir eldra fólks þurfa að sætta sig við kjör undir og við mörk lágmarksframfærslu. Ekkert bendir til þess að tekið verði á því að leiðrétta kjör þeirra samkvæmt fjármálaáætluninni. Í ljósi þess sem ráðherrann sagði um að nefnd væri störfum, þá hefði ég mikinn áhuga á að vita hvenær henni er ætlað að skila störfum um kjör eldra fólks.