Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:33]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Virðulegi forseti. Nefndinni er ætlað að skila sem fyrst, ég held að það sé besta svarið. Ég er ekki með nákvæma tímasetningu á því, en á þessu ári. Það er alveg ljóst að það þarf að kostnaðargreina þær tillögur sem þar koma fram með það að markmiði, eins og kemur fram í fjármálaáætluninni, að halda áfram að bæta afkomu þeirra sem lægst hafa kjörin. Að mínu mati hafa verið stigin mikilvæg skref á undanförnum árum, bæði kerfisbreytingin sem var gerð 2017 og við ræddum hér áðan og líka félagslegi viðbótarstuðningurinn sem kom inn 2020 eða 2021. Hann er ekki síst mikilvægur fyrir fólk sem nýtur ekki fullra réttinda í kerfinu, það eru oft og tíðum konur af erlendum uppruna sem njóta ekki fullra ávinnsluréttinda í kerfinu. Því er alveg ljóst að í þessum tillögum munum við horfa til þess hóps sem lakast stendur. Það er oft fólk sem er annaðhvort í leiguhúsnæði eða skuldsettu eigin húsnæði og fólk sem hefur takmarkaðar tekjur aðrar en úr almannatryggingakerfinu. Konur sem hafa ekki unnið sér inn mikil lífeyrisréttindi eru auðvitað oft og tíðum í lægstu tekjutíundunum og ég tek undir áherslur hv. þingmanns um að það þurfi að sinna þeim hópi sérstaklega.

En af því að við erum að ræða málefni eldra fólks þá langar mig líka aðeins að minna á þá ágætu vinnu sem er í gangi í verkefninu Gott að eldast, sem er umfangsmikil endurskoðun á þjónustu við eldra fólk sem skiptir líka mjög miklu máli fyrir þennan hóp, og liggur hér fyrir þinginu í formi þingsályktunartillögu og aðgerðaáætlunar fyrir næstu ár. Ég vonast til þess að við getum samþykkt það sem fyrst á vorþingi.