Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:35]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að spyrja hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra aðeins út í nýgengni örorku og þau tækifæri sem eru í því að bregðast við vaxandi vanda ungs fólks og hvernig þau tækifæri endurspeglast í fjármálaáætlun fyrir árin 2024–2028. Eins og segir í fjármálaáætlun, undir örorku og málefni fatlaðra, er aukning á nýgengi örorkumats meðal ungra kvenna sökum geðraskana. Ég hef sjálf gert að umtalsefni á þinginu, í sérstakri umræðu við hæstv. heilbrigðisráðherra, verulega aukningu í notkun þunglyndislyfja, sérstaklega meðal ungs fólks, enda liggur fyrir að Ísland hefur sérstöðu þegar kemur að notkun þunglyndislyfja og hérlendis er hún mjög mikil í alþjóðlegum samanburði. Þessi umræða um vaxandi geðheilbrigðisvanda á ekkert síður við hæstv. félags- og vinnumarkaðsráðherra sem fer með málefni örorku- og almannatrygginga.

Til að bregðast við þessum vanda þarf auðvitað áætlun og samvinnu tveggja stórra málefnasviða, þ.e. geðheilbrigðismála og félagsmála. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort einhver verkefni séu nú þegar unnin í samvinnu félags- og vinnumarkaðsráðuneytis og heilbrigðisráðuneytis til þess að bregðast við þessum vaxandi vanda. Ef já, hvaða verkefni eru það? Ef ekki, er gert ráð fyrir því að slíkt samtal og samvinna muni eiga sér stað á næstu árum og er þessu gerð skil í fjármálaáætluninni til næstu fjögurra ára?

Forgangsröðun á þessu verkefni kostar vissulega fjármagn en getur leitt af sér gríðarlegan sparnað til framtíðar. Það er til mikils að vinna en fyrir einstaklingana getur það auðvitað aukið lífsgæði og lífskjör þeirra til muna að hér séu öflug úrræði fyrir hendi sem auka líkur á því að einstaklingum verði gert kleift að leysa úr læðingi krafta og hæfileika sína og efla samfélagslega þátttöku þeirra.