Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:39]
Horfa

Berglind Ósk Guðmundsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra kærlega fyrir skýrt og gott svar og það er gott að heyra að þeim verkefnum sem eru í gangi í ráðuneytinu. Ég tel það vera til mikils að vinna að samtal, t.d. bara þessara tveggja ráðuneyta eigi sér stað um nýgengni örorku vegna geðheilbrigðisvandamála og við sem sitjum hér á þingi berum mikla ábyrgð á að tryggja framtíðarkynslóðum góð skilyrði til að lifa hér. Að búa vel undir þennan málaflokk getum við horft á sem framtíðarfjárfestingu í komandi kynslóðum. Mig langar í framhaldinu að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hugað sé að nýsköpun í málaflokkum ráðherrans? Við sem samfélag erum á blússandi siglingu í stafrænni vegferð sem bíður upp á mjög hraðar samfélagslegar breytingar. Það yrði fyrir hendi gríðarlega mörg tækifæri til hagræðingar þegar kemur að veitingu stafrænnar þjónustu og sérstaklega þegar við horfum til þess að þjónusta íbúa í dreifðari byggðum má vera mun betri með nýtingu stafrænnar opinberrar þjónustu. Hins vegar er líka alveg ljóst að hér undir er málaflokkur fólks í viðkvæmri stöðu og því slæ ég líka á þann varnagla að auðvitað er ekki öllum gefið jafnt aðgengi að tækni og hæfni fólks er vissulega mjög mismunandi, en þar getur auðvitað nýsköpun í velferðartækni leikið stóra rullu.

Það eru margvíslegar áskoranir í málaflokknum sem heyra undir ráðuneyti hæstv. félags- og vinnumarkaðráðherra en ágætlega er farið yfir í greinargerðinni með fjármálaáætluninni. Þeim áskorunum verðum við að mæta með því að horfa til nýsköpunar. Ég er því með svolítið svipaða spurningu kannski og hérna áðan: Hvernig birtast okkur tækifærin í aukinni nýsköpun og stafrænni vegferð í undirliggjandi málaflokk í fjármálaáætluninni? Leggur hæstv. ráðherra áherslu á að bæta þjónustu við einstaklinga með aukinni stafrænni þjónustu og með það sérstaklega fyrir augum að auka hagkvæmni og skilvirkni í þjónustunni við einstaklingana?