Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:51]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður spyr hvort mér finnist sanngjarnt að konur séu lægri. Nei, að sjálfsögðu finnst mér það ekki sanngjarnt. Þess vegna mun sú kerfisbreyting sem við erum að fara í í örorkulífeyriskerfinu, þar sem eitt af markmiðunum er að hækka þau sem minnst hafa, gagnast konum betur heldur en körlum heilt á litið. Það er því mikið réttlætismál sem þessi heildarendurskoðun jafnframt felur í sér. Mér finnst mjög ánægjulegt að við kynnum núna fjármálaáætlun til næstu fjögurra ára þar sem við erum í fyrsta skipti að tryggja fjármagn inn í þessa kerfisbreytingu sem við erum búin að vera að bíða eftir svo ofboðslega lengi og búið að gera í rauninni allmargar tilraunir að því að breyta kerfinu. Það erum við að gera á sama tíma og við vitum öll hver staða ríkisfjármála er. Þetta er áhersluatriði ríkisstjórnarinnar sem þarna sér stað, ég er mjög ánægður með það.

Hv. þingmaður kemur líka inn á 69. gr., sem mig grunar að sé 64. gr. eftir að við samþykktum lög hér fyrir páskana — ég man ekki alveg númerið á greininni en kannski hv. þm. Björn Leví Gunnarsson muni það, ég sé hann hér í salnum, hann er minnugur á tölur. (Gripið fram í.) Mér finnst í sjálfu sér sjálfsagt að við skoðum 69. gr., ætla ég að fá að kalla hana, en það þarf þá að skoða það út frá mörgum hliðum. Hvað er það sem gagnast örorkulífeyrisþegum best þegar þar að kemur? Vegna þess að eins og kerfið er í dag er það ekki alslæmt þó svo að það geti mögulega verið einhverjir gallar á því hvernig það er gert.