Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:53]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Þegar við tölum um að stefna stjórnvalda sé að gera eitthvað og það eigi að hafa einhver áhrif þá viljum við skoða hver árangurinn er þegar allt kemur til alls. Til þess eru settir upp ákveðnir mælikvarðar, til að sjá hvort stjórnvöld náðu markmiðum sínum. Það er mjög gaman að skoða eldri fjármálaáætlanir og bera saman við nýju. Það átti t.d. að einfalda og gera sveigjanlegra almannatryggingakerfi — sem núna er vitað hversu mikið kostar. Það er mjög áhugavert alla vega að við vitum hversu mikið það mun kosta, verð ég að segja, þegar við vitum ekki einu sinni hvernig það lítur út og það á ekki að koma fyrr en eftir tvö ár eða eitthvað svoleiðis. Árið 2017 var staðan sú að 61% lífeyrisþega voru með of- eða vangreiðslu innan við 50.000. Það átti að minnka þetta hlutfall þannig að fleiri væru með nákvæmari tölu og markmiðið fyrir 2023, árið í ár, var að 80% væru með svona nokkuð nákvæmar greiðslur en staðan 2022 var 55,9%, sem sagt verri nákvæmni heldur en 2017 og viðmiðið 2028 meira að segja bara 65%, ekki 80% eins og á að verða í ár. Mér finnst það áhugavert með tilliti til þess hvernig þetta á að gerast allt, sérstaklega miðað við að það á að vera komið nýtt og betra kerfi sem á væntanlega að vera nákvæmara, samt bara 60% eða 65% nákvæmni.

Síðan úr fjármálaáætlun 2019 varðandi fjölda sveitarfélaga með nýsköpun fyrir fatlað fólk, sem var talað um hér áðan, þá voru árið 2017 þrjú sveitarfélög með nýsköpunarvinnu fyrir fatlað fólk og áttu að vera orðin 32 árið 2023 en í fyrra voru þau bara þrjú. Þau eiga að vera átta á næsta ári og 24 árið 2028. Mér finnst þetta vera dálítil endurnýting á markmiðum og mælikvörðum án þess að nokkuð hafi gerst. Hvernig stendur á því?