Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[18:58]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Nokkur atriði í viðbót. Það á að fækka fjölda ákvörðunarþátta í barnabótum úr 15, eins og þau voru í fyrra, niður í sjö árið 2024 og niður í fimm árið 2028. Af hverju ekki fimm árið 2024? Hvaða þættir eru þetta eiginlega sem er verið að fækka þarna? Mér finnst þetta mjög áhugaverð framsetning. Einnig á að auka stuðning við aldraða sem lakast standast og það er mælt með því að fjöldi aldraðra sem fær fjárhagsstuðning frá sveitarfélagi á hverju ári — það á að fækka því fólki. Ég veit ekki alveg hvernig á að fara að því, það er mjög áhugavert. Er það bara að verða svo gamalt eða hvað? Ráðherra talar um að það sé ekki langt síðan við byrjuðum að nota þessa mælikvarða. Það eru nú orðin þó nokkur ár. Ég vitnaði hérna til stöðunnar eins og hún var 2017. Það er nú hægt að gera ýmislegt á sex árum, verð ég að segja. Við höfum t.d. á þessum tíma verið að grátbiðja stjórnvöld um að koma með kostnaðar- og ábatagreiningu á stefnuna sína, frá fyrsta degi, en það hefur bara aldrei gerst. Það var tilraun gerð til þess í fyrstu fjármálaáætluninni en svo var því bara hætt í staðinn fyrir að reyna að bæta við og gera meira og gera betur. Núna erum við að fá hérna kostnaðaráætlun á einföldun lífeyriskerfisins fyrir örorkubætur upp á rúmlega 16 milljarða. Við vitum hvað það kemur til með að kosta en við vitum ekki hverjar breytingarnar verða. Ef við vitum ekki hverjar breytingarnar verða þá skil ég ekki hvernig við vitum hversu mikið það mun kosta. Af hverju kosta þær rúma 16 milljarða? Það er held ég frekar augljós spurning í þessu samhengi.