Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:19]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að taka upp þetta mál. Ég er sammála hv. þingmanni, ég tel að við þurfum að skýra löggjöfina og við höfum verið að vinna að undirbúningi slíks í ráðuneytinu. Það er kannski eðlilegt að það hafi ekki verið á þingmálaskrá vegna þess að það mál sem hér kom upp gerðist náttúrlega löngu eftir að hún kom fram en engu að síður þá tók ég síðan þá ákvörðun að leggja ekki fram frumvarp núna á vorþingi vegna þess að ég tel að við þurfum meira samtal við aðila vinnumarkaðarins og að reyna að ná saman um það hvernig við ætlum að gera þetta. Ég hef fengið gagnrýni fyrir að hafa tekið þá ákvörðun. Þetta hleypur ekkert frá okkur en við höfum hins vegar ekki mikinn tíma og ég tel að það sé mikilvægt að það komi fram frumvarp í haust sem taki á því sem a.m.k. sum vilja meina að sé réttaróvissa og ég hef verið í þeirra hópi, þ.e. það þurfi að breyta lögunum. En það má kannski finna fleiri en eina leið til þess og það er svolítið sú umræða sem við viljum taka núna við aðila vinnumarkaðarins því að það er auðvitað til mikils að vinna ef það er hægt að ná sátt um breytingar sem snúa að þessu mikilvæga atriði sem valdheimildir ríkissáttasemjara eru og það tæki sem hann vissulega hefur til sáttamiðlunar í gegnum miðlunartillögu. Ég á von á því að setja saman starfshóp núna á næstu dögum, við skulum gefa því viku eða tvær, til að ræða þessi mál og ég ætlast líka til þess að aðilar vinnumarkaðarins komi að því borði sáttfúsir og að þeir vilji aðstoða stjórnvöld við það að ná ásættanlegri lausn sem aðilarnir geta sætt sig við, beggja vegna borðs.