Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:21]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Það er freistandi að halda áfram umræðunni um úrræði eða úrræðaleysi ríkissáttasemjara í framhaldi þeirrar fyrirspurnar sem lögð var fram hér á undan. Ég ætla aðeins að geyma það. En á málefnasviði 10, þar sem m.a. er fjallað um útlendingamál, segir, með leyfi forseta:

„Útgjaldarammi málefnasviðsins hækkar um 4,4 milljarða kr. árið 2024 frá gildandi fjárlögum. Skýrist það að mestu af tímabundnu 5,6 milljarða kr. viðbótarframlagi til að mæta fjölgun umsækjenda um alþjóðlega vernd …“

Síðan segir á bls. 231, með leyfi forseta:

„Umsækjendum um alþjóðlega vernd er almennt að fjölga í Evrópu. Ástæðurnar eru margar og fjölbreyttar. Mikilvægt er að horfast í augu við nýjan raunveruleika, málaflokkurinn hefur vaxið gríðarlega og mun umfang hans ekki minnka teljanlega á næstunni.“

Hvernig fer þetta tvennt saman, hæstv. ráðherra, að leggja fram tillögu með tímabundnu 5,6 milljarða viðbótarframlagi en segja síðan nokkrum blaðsíðum síðar að það bendi ekkert til þess að umfang vandans muni minnka teljanlega á næstunni? Er þetta einhvers lags barbabrella, bókhaldsfiff í fjármálaáætluninni gagnvart seinni hluta hennar? Eins og ég segi, 5,6 milljarða viðbótarframlag í tvö ár — mig langar bara að biðja hæstv. ráðherra að útskýra hvernig þetta tvennt fer saman því að ég skil það ekki.