Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það eru tvö atriði sem ég vil fá að bæta við hér sem mér gekk illa að lesa út úr hvað fjármálaáætlun varðar. Annars vegar er það hver sé áætlaður heildarkostnaður við samninga við sveitarfélög um svokallaða samræmda móttöku. Nú eru fréttir af slíkum samningum að berast mjög reglulega. Á hæstv. ráðherra upplýsingar um það fyrir okkur hver áætlaður heildarkostnaður, heildarútgjöld vegna þeirra samninga er fyrir ríkissjóð? Hins vegar hver áætlaður kostnaður er við það sem hér er kallað á bls. 232 í málaflokki 10, með leyfi forseta:

„Í kjölfar úttektar föstu eftirlitsnefndarinnar með Schengen-samstarfinu, sem fram fór árið 2017, á innleiðingu og beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2008/115/EB um sameiginleg viðmið og skilyrði fyrir brottvísun ríkisborgara utan EES sem dveljast ólöglega á yfirráðasvæði aðildarríkjanna (brottvísunartilskipunin) hafa verið gerðar athugasemdir við að ekki sé til staðar hérlendis lokað úrræði fyrir útlendinga sem bíða endursendingar. Þessar athugasemdir ítrekaði eftirlitsnefndin við úttekt sem fram fór hér á landi í maí 2022. Samkvæmt ábendingum nefndarinnar þyrfti á næstu árum að fara fram vinna við að setja á laggirnar slíkt úrræði.“

Er kostnaður við það fyrir komið í fjármálaáætlun og hver er kostnaðurinn við þessi áform sem hér er flaggað?