Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér í fyrri umræðu um fjármálaáætlun 2024–2028 sem byggir á fyrirliggjandi fjármálastefnu sem á að stuðla m.a. að stöðugleika, svo vísað sé til grunngilda laga um opinber fjármál. Í formi þingsályktunar er það Alþingis að meta hvort sú áætlun sem hér liggur fyrir sé í samhengi við markmið gildandi fjármálastefnu og þau gildi sem liggja þar til grundvallar. Af hverju dreg ég þetta fram í upphafi, virðulegi forseti? Jú, endurskoðun áætlunar hvert ár næstu fimm ár tekur ávallt mið af þessum ramma hverju sinni og þeirri efnahagsþróun sem á sér stað og við þekkjum öll þá stöðu og hvaðan við erum að koma með tilheyrandi áhrifum og áskorunum um að draga úr skuldasöfnun og verðbólguþrýstingi. Þessi fjármálaáætlun er ábyrg að því leyti, virðulegi forseti, dregur um leið fram markvissa og árangursríka stefnu um að ná jafnvægi, skila jákvæðum frumjöfnuði, draga úr skuldasöfnun, slá á verðbólgu og verðbólguvæntingar og um leið verja lífskjör og velferð. Ég reyni hér, virðulegi forseti, að draga saman í eins stuttu máli og ég get hvað þessi fjármálaáætlun snýst um.

En auðvitað er ég hér til að ræða málefnasvið heilbrigðismála. Stuðningurinn við heilbrigðiskerfið hefur ekki og er ekki látinn ráðast af hagsveiflunni. Það blasir við af þessari áætlun. Útgjöld til heilbrigðismála hafa enda verið mest í umfangi ríkisútgjalda. Að jafnaði eru þetta um 27% af heildarútgjöldum og 32% af rammasettum útgjöldum. Frá árinu 2017 hafa framlög til heilbrigðismála verið aukin jafnt og þétt. Heildarframlögin voru til að mynda árið 2016 177 milljarðar. Árið 2028 verða þau samkvæmt þessari uppfærðu áætlun 391,5 milljarðar og framlög til heilbrigðismála þannig hækkuð jafnt og þétt áfram og gert ráð fyrir því að þau hækki um 13,2% á föstu verðlagi frá gildandi fjárlögum 2023.

Við samþykkt fjárlaga fyrir þetta ár bættum við við milli umræðna 12,2 milljörðum inn í kerfið, til að styrkja stofnanir, styðja við starfsfólk og efla þjónustuna, sem að mestu koma varanlega inn í kerfið og við búum að því. Reksturinn er áfram varinn og engin aðhaldskrafa er sett á sjúkrahúsþjónustu, heilsugæslu og öldrunarstofnanir. Raunvöxtur er endurmetinn vegna fjölgunar og öldrunar þjóðarinnar og framlög hækkuð vegna þessa. Fjölgun og öldrun þjóðarinnar er áskorun er varðar mönnun og fjármögnun og kallar á aukin framlög. Þennan lýðfræðilega vöxt sjáum við í útgjaldaaukningu til heilbrigðismála. Hröðunina í öldrun má m.a. sjá af því að ef við tökum hóp áttræðra og eldri þá fjölgar þeim um fjórðung við lok þessarar áætlunar, þá hefur þeim fjölgað um 3.500 manns. Þetta er áskorun í sjálfu sér. Samkvæmt áætluninni hækka framlög um 4,2–4,5 milljarða á ári vegna þessarar lýðfræðilegu þróunar.

Þá vil ég draga fram að það hlýtur að gleðja að sjá gríðarmikla uppbyggingu nýja Landspítalans við Hringbraut raungerast og á tímabili áætlunarinnar er gert ráð fyrir 126 milljörðum í þær fjárfestingarframkvæmdir. Þar er horft til mikilvægis þess að bæta aðstöðu, gæði, tæki og aðbúnað alls heilbrigðiskerfisins, heilbrigðisstarfsfólks og þjónustuþega. Ég vil vísa hér til ítarlegrar umfjöllunar um heildaráætlun uppbyggingar nýs Landspítala í rammagrein fimm.

Auk þess eru áætlaðir 23 milljarðar í uppbyggingu hjúkrunarheimila í samræmi við framkvæmdaáætlun þar sem gert er ráð fyrir 394 nýjum rýmum og 125 endurbættum rýmum. Þá eru ótaldar mikilvægar framkvæmdir við sjúkrahúsið á Selfossi, legudeild við Sjúkrahúsið á Akureyri, heilsugæslustöðvar á Akureyri og í Reykjanesbæ, Njarðvík, og þá er nýbúið að ljúka við nýja legudeild á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Með þessu erum við að búa okkur betur undir áskoranir til framtíðar og aukna þjónustuþörf og óbreytta að einhverju marki, þörf fyrir endurhæfingarþjónustu, krabbameinsþjónustu, geðheilbrigðisþjónustu og til að mynda er aðgerðaáætlun í geðheilbrigðisþjónustu fjármögnuð á þessu ári þannig að hefja megi verkefnið og þær aðgerðir eru nú til umfjöllunar í þinginu.

Ég kemst ekki lengra en mun taka þá restina af því sem ég ætlaði að koma á framfæri hér í samtali við hv. þingmenn.