Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[19:35]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Út um allan heim eru þjóðir að leita leiða til að laða heilbrigðis- og umönnunarstarfsfólk til starfa og sjá til þess að það vilji halda áfram að starfa innan heilbrigðis- og umönnunargeirans. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin og Evrópusambandið hafa sett niður viðmið í þeim efnum. Þar eru nefndar úrbætur á vinnustað, starfsaðstæður og möguleikar á framgangi í starfi, að skapa þurfi mannsæmandi og öruggt starfsumhverfi, nægilega mönnun og starfskjör sem hvetji og styðji heilbrigðis- og umönnunarstarfsmenn og tryggi heilbrigði þeirra og öryggi á vinnustöðum, verndi heilsu þeirra og andlega vellíðan. Notendur þjónustunnar muni njóta góðs af því þegar starfsmenn fái betri stuðning. Greina þurfi kynja- og aldurstengdan mun á þörfum starfsmanna og hættu á kulnun og ofbeldi, ásamt öryggi á vinnustað og stuðningi við umönnun barna og fjölskyldna, tryggja að geta starfsmanna sé nýtt að fullu við að veita heilbrigðis- og umönnunarþjónustu og að nægur fjöldi starfsmanna með nauðsynlega færni sé til staðar á réttum stað og á réttum tíma. Það þurfi að fylgja siðareglum um ráðningar og bregðast við breyttri aldurssamsetningu þjóða og fólksflutningum. Varað er við því að ástandið sé nýtt í gróðaskyni í einkarekstri. Flest nágrannalönd okkar hafa áttað sig á mikilvægi þess að fjárfesta í heilbrigðis- og félagsþjónustu og tilheyrandi starfsfólki og við erum í samkeppni við önnur lönd um okkar fólk.

Í fjármálaáætluninni er talað um mönnunarvanda sem áskorun en raunhæfar aðgerðir og fjármagn skortir. Það er hægt að gera margt fyrir peninga til að laða starfsmenn að og halda hinum sem fyrir eru; kaupa nýrri og betri tæki, bæta starfsaðstöðu og fjölga nemendaplássum, svo að eitthvað sé nefnt. Hvers vegna er það ekki lagt til svo að um muni? Hvernig sér hæstv. ráðherra fyrir sér að mönnunarvandinn verði leystur án frekari fjárútláta?