Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:01]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni umræðuna. Við erum auðvitað með samning um þjónustu við fíkniefnaneytendur við sjúkrahúsið Vog og m.a. um viðhaldsmeðferð við fíkn. Því miður er fjölgun á því sviði en við erum að vinna þar með viðhaldsmeðferðarlyf og getum svolítið skoðað tölurnar í gegnum það og fólk er þá í þjónustu SÁÁ eða Landspítala eða á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Við erum með lyfið buprenorphine sem er morfín sem er bæði til í töfluformi og sem stungulyf og það þarf að vinna með þessar viðhaldsmeðferðir áfram. Við erum líka að leggja áherslu á að horfa til neyslurýma sem lagalega verndaðs umhverfis og við erum líka að skoða að notendur 18 ára og eldri geti þá sprautað ávana- og vímuefnum í æð undir eftirliti sérhæfðs starfsfólks þar sem fyllsta hreinlætis og öryggis er gætt og gætt að sýkingarvörnum. Við erum líka að vinna að því, með samtali við þá aðila sem ég nefndi hér, að það verði aukin samvinna á milli aðila þannig að þjónusta verði í boði þegar fólk þarf á henni að halda.

Eins og hv. þingmaður orðaði það hér þá spyr fíknisjúkdómur hvorki um stétt né stöðu eða tíma og þá þurfum við að vera til staðar. Það er verið að vinna í þessu á fjölmörgum sviðum og ég vil líka taka það fram að við höfum fjármagnað samning um til að mynda neyslurými til tveggja ára. (Forseti hringir.) Við þurfum bara að finna húsnæði með Reykjavíkurborg. (Forseti hringir.) Það er þannig verið að vinna að fjölmörgum þáttum til að bæta úr þessu umhverfi.