Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:06]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrir hennar spurningu. Hún dregur hér fram stöðu í heilbrigðiskerfinu og setur það í samhengi við markmið um það að vera á heimsmælikvarða. Við gerum það gjarnan, að bera okkur saman við aðra, og hv. þingmaður dró hér fram útgjöld til heilbrigðismála sem einhvern mælikvarða á það hvernig við stöndum í erlendum samanburði og við Norðurlandaþjóðirnar. Ég hef aðeins lagt mig fram um að skoða þessar tölur og það er stundum erfitt, það er helst í gögnum frá OECD sem er hægt að byggja á þessum tölum. En þá kemur að því að fyrirkomulagi til að mynda á Norðurlöndunum varðandi stjórnsýslustigin sem er ekki alveg það sama og það veldur stundum vandræðum. Þá er gott að horfa til þess mælikvarða sem er hlutfall af verðmætasköpun eða vergri landsframleiðslu. Þar erum við lægri en Norðurlandaþjóðirnar en það er ástæða fyrir því; við erum hlutfallslega mun yngri þjóð. Það kallar á lægri útgjöld, það er bara staðreynd. Við erum mun yngri en meðaltal OECD-þjóða en við færumst alltaf nær og hröðun í öldruninni er mjög mikil. Þegar kemur að mönnun er líka hægt að bera saman hvernig við erum mönnuð í helstu stéttum og við komum ágætlega út í þeim samanburði, til að mynda við Norðurlöndin, í helstu starfsstéttum. Þetta er áskorun hér en þetta er líka áskorun þar og það er ekki alls staðar allt fullkomið. (Forseti hringir.) Ég skil alveg hvað hv. þingmaður er að fara þegar hann nefnir í þessu samhengi heimsmælikvarða. (Forseti hringir.) Ég get alveg tekið undir það með hv. þingmanni að við verðum að setja það í eitthvert samhengi.