Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni mjög góða umræðu og ég held að við ræðum kannski of sjaldan hvernig umræðan er um kerfið okkar. Það er kannski skiljanlegt að það sé oftar rætt um það sem miður fer en það sem vel er gert, af því við eigum alveg ótrúlega, eins og ég veit að hv. þingmaður getur tekið undir með mér, hæfileikaríkt starfsfólk, eins fámenn þjóð og við erum og með jafn lítið kerfi, með ótrúlega færa sérfræðinga og öflugt kerfi. Við erum í dreifbýlu landi og það er eiginlega með ólíkindum hvernig okkur hefur tekist að byggja þetta upp. Það verður sífelld áskorun að viðhalda því, það blasir alveg við mér eftir þennan tíma í þessu embætti.

Umræðan skiptir miklu máli þegar kemur að traustinu og það snýr m.a. að því þegar alvarleg atvik koma upp og við ræðum gjarnan og eðlilega. Heilbrigðisþjónusta er bara þess eðlis að alvarleg atvik koma upp og þau eru tilkynnt til landlæknis og rannsökuð. Starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks hefur ákveðna sérstöðu sem einkennist oft af miklum hraða í bráðaaðstæðum, krefjandi aðstæðum og óvæntum atvikum. Þess vegna hef ég beitt mér fyrir því að taka upp skýrslu frá 2015 sem snýr að því að auka gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu, bæði gagnvart starfsfólkinu og gagnvart sjúklingum.

Varðandi umboðsmann sjúklinga er ég algerlega sammála þeirri hugmyndafræði, ég held að það væri mjög gagnlegt. Við stigum skref í áttina að því þegar við breyttum lögum varðandi stjórn á Landspítala með notendasamtökum og aðkomu notendasamtaka að öllum ákvörðunum og skipulagi stofnana