Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:16]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur spurninguna. Við höfum oft rætt hér stöðu einstakra aðgerða þar sem biðlisti er langur eins og liðskipti, en þá höfum við gjarnan farið í svona átaksverkefni. Svo er þetta tog í okkar blandaða kerfi. Við erum vissulega með mjög færa sérfræðinga en það er takmarkaður auður og við þurfum að tryggja ákveðna lögbundna þjónustu inni á spítalanum. Alltaf eru áhyggjur af því inni á spítalanum að missa færustu sérfræðingana, sem þurfa að koma að mjög fjölbreyttum og flóknum aðgerðum á spítalanum, í aðgerðir utan sjúkrahúsanna.

Varðandi liðskiptin þá er ég þeirrar skoðunar, á grunni heilbrigðisstefnu um jafnt aðgengi einstaklinga að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, að þetta eigi hreinlega að vera í boði. Þegar við tölum um liðskipti, þá er það gríðarlega mikilvæg lýðheilsuaðgerð sem á að vera aðgengileg öllum óháð efnahag. Fyrir mér blasir algerlega við að við þurfum að nýta alla afkastagetuna í kerfinu. Það finnst mér við ekki hafa verið að gera og ég er uggandi yfir því. Við settum aukna fjármuni inn milli umræðna um fjárlög, en það er tímabundið og svolítið í takt við það sem hefur verið. Þegar við förum af stað og gerum samninga, eins og búið er að gera núna, þá þurfum við að halda því áfram og vinna þannig markvisst niður biðlistana. Hluti af því er að til sé miðlægur biðlisti þannig að algjört jafnræði gildi um aðgengið frá því að þú kemur, færð greiningu og ferð í aðgerð.