Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[20:23]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Hún er mikilvæg af því að heilbrigðisþjónusta er auðvitað stór og mikilvægur þáttur í velferð okkar samfélags og skiptir okkur miklu máli. Mig langar kannski að byrja á því sem ég vil kalla skýrleika í þessari fjármálaáætlun. Ég þykist vera þokkalega læs á tölur, ársreikninga og áætlanir, hafandi tekið þátt í að búa slíkt til í gegnum tíðina, en mér þykir framsetningin á þessu ekki vera eins og hún gæti best verið. Sem dæmi, þegar verið er að rekja ársreikning 2021, 2022 og 2023, þá er verið að setja þetta niður á ákveðna þætti eins og samhæfða sjúkrahúsþjónustu, almenna sjúkrahúsþjónustu og erlenda sjúkrahúsþjónustu og þetta er allt rakið í liðum þannig að maður sér hvað fer í hvern flokk. En svo þegar verið er að skoða það sem á að gerast í áætluninni þá er bara áætlað framlag í rekstur og tilfærslur og engin sundurliðun. Maður áttar sig ekkert á þessu.

Annað dæmi er það sem á að gerast utan sjúkrahúsanna. Þar er talað um heilsugæslu, sérfræðiþjónustu, hjúkrun, sjúkraþjálfun og sjúkraflutninga, en þegar kemur að áætluninni þá er bara talað um framlag í rekstur. Maður áttar sig ekkert á því hvað fer í hvað.

Mig langar aðeins að nefna tölurnar, af því að tíminn rennur frá manni. Ef ég fer bara í sjúkrahúsþjónustuna þá er hækkun á milli ára, um 2% 2025 og um 1,6% 2026 og 1,6% 2027. Launakostnaður er 70% af heildarrekstri sjúkrahússins eða Landspítalans, held ég alveg ábyggilega, og þá duga ekki þessar tölur fyrir launakostnaði og breytingum á honum á milli ára. (Forseti hringir.) Ef 70% fá 5% hækkun þá er það 3,5% og því sé ég ekki (Forseti hringir.) að það sé einu sinni verið að halda í við þá stöðu sem er uppi í dag.