Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[22:16]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg klárt hvað á að gera samkvæmt þessu frumvarpi verði það að lögum. Það er verið að bæta nýju ákvæði við vinnuverndarlögin þar sem er kveðið á um að atvinnurekendum sé skylt að koma upp áreiðanlegu og aðgengilegu kerfi vegna skráningar á vinnutíma starfsmanna sinna sem innihaldi m.a. upplýsingar um daglegan og vikulegan vinnutíma sem og upplýsingar um á hvaða tíma sólarhrings unnið er samfelldan hvíldartíma og vikulegan frídag. Þannig að það er alveg ljóst hvað á að gera. Það er hins vegar sveigjanlegt með hvaða hætti fyrirtækin ákveða að gera það og ég held að sá sveigjanleiki sé mikilvægur. En það fylgir því einfaldlega ábyrgð að vera með fólk í vinnu, svo einfalt er það mál. Þetta er lágmarkskrafa, fyrirtæki eiga bara einfaldlega að hafa það í lagi með hvaða hætti vinnutíma starfsfólks er háttað. Það er að mínu mati grundvallaratriði þegar kemur að réttindum fólks á vinnumarkaði.