Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[22:17]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsöguna í þessu máli. Dálítið athyglisvert mál. Vinnumarkaðurinn er svona almennt að breytast og tímaskráningar eru, myndi ég segja, á undanhaldi fyrir afkastaskráningu. Þú ert ekki lengur mældur út frá því hvort þú vinnur akkúrat átta tíma á dag heldur hverju þú nærð að skila af þér. Ég skil hins vegar alveg að það séu reglur um hvíldartíma og ýmislegt annað. Við þurfum að sjálfsögðu að passa að það sé ekki verið að brjóta á fólki. Mér finnst reyndar athyglisvert að í frumvarpinu er atvinnurekendum skylt að koma upp slíku kerfi en það er engin skylda til þess að starfsmennirnir fylli einhver gögn inn í það kerfi. Ég held að það verði líka ánægjulegt og gaman að sjá, þegar þetta frumvarp hefur verið samþykkt, vinnutíma og hvíldartíma hjá ráðherrum og öðrum því að margt af því sem er í þessum lögum er kannski ekki alveg alltaf uppfyllt í þessu húsi hérna.

Mig langaði að spyrja ráðherrann — ég skil grundvöllinn bak við þetta, það er verið að vernda starfsmenn, en er ekki þörf á því að við séum með einhvers konar sveigjanleika í kerfinu þar sem fólk er ekki í tímavinnu t.d.? Heimurinn er bara orðinn svo breyttur frá því þegar þessi tilskipun var sennilega skrifuð.