Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

aðbúnaður, hollustuhættir og öryggi á vinnustöðum.

940. mál
[22:19]
Horfa

félags- og vinnumarkaðsráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Kannski aðeins svona almennt um sveigjanleika hvað varðar vinnutíma, þá er hann náttúrlega talsverður samkvæmt IX. kafla laganna og þarf ekki að uppfylla öll skilyrði innan vikunnar eða innan mánaðarins heldur er sveigjanleiki í því yfir lengri tíma. Ég held að við séum að stíga hér skref sem er kannski bara eitt af þessu sem er svo sjálfsagt. Við erum að veita starfsfólki, alveg sama hvort það er í vinnu á hinum opinbera eða almenna vinnumarkaði, meira öryggi. Við tölum um það oft og tíðum að við viljum forðast félagsleg undirboð, brotastarfsemi á vinnumarkaði o.s.frv. Þetta er ein leið til að halda utan um þessi gögn. Það tel ég að sé afskaplega mikilvægt og í rauninni er það kannski frekar ámælisvert að það hafi þurft Eftirlitsstofnun EFTA til að við myndum setja þetta inn í lög, því að það er vissulega það sem ýtir á eftir því að þetta sé gert. Ég ætla nú samt að leyfa mér að vona að þetta sé víðast hvar í ágætum málum því að mjög mörg fyrirtæki og opinberar stofnanir eru með vinnutímaskráningar. En það er ekki endilega alls staðar og ég tel að þetta sé mikilvægt til þess að halda betur utan um réttindi starfsfólks á vinnumarkaði.