Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:36]
Horfa

matvælaráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Frumvarp af því tagi sem hér er til umfjöllunnar hefur ekki komið fyrir þingið áður því að hér er um að ræða töluverð frávik frá því sem hv. þingmaður er að vísa til, eins og ég raunar fór yfir í minni framsögu. Í fyrsta lagi erum við hér að gera ráð fyrir því að við séum að gæta að því að veiðisvæðin séu staðbundin, að heimildir fari ekki á milli svæða. Áður við þinglega meðferð frumvarps um veiðistjórn grásleppu þá komu fram áhyggjur af því að slík ráðstöfun myndi hafa verulega neikvæð áhrif á nýliðun og fela í sér fjárhagslegar hindranir fyrir komandi kynslóðir til að hefja grásleppuveiðar og í umsögnum við það frumvarp var bent á að það hefði ekki orðið mikil nýliðun í grásleppuveiðum síðastliðin tíu ár þrátt fyrir að kostnaður við að hefja veiðar í núverandi kerfi væri ekki mikill. Þess vegna er í öðru lagi í þessu frumvarpi lagt til að ráðherra verði heimilt að draga 5,3% frá heildarafla grásleppu til að tryggja nýliðun í kerfinu. Það má nú með réttu nefna í sömu andrá nýliðun og almannahagsmuni og ekki síst í þessum kerfum sem hér eru til umræðu. Áður hafa komið fram áhyggjur af samþjöppun en til þess að tryggja að aflahlutdeildin verði dreifð innan staðbundinna veiðisvæða þá er lagt hér til að sett verði 2% hámarksaflahlutdeild og væri hægt að hugsa sér út frá þeirri töflu sem hér er lögð til grundvallar, sem er svona nokkurs konar viðmið, að það mætti skoða hvort sú tala sé of há en ég treysti hv. atvinnuveganefnd vel til að fara yfir það.