Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

976. mál
[22:38]
Horfa

Sigurjón Þórðarson (Flf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þessi ræða og andsvör hæstv. ráðherra fá mig til að spyrja hæstv. ráðherra: Við hvern ráðfærði hún sig þegar hún lagði þetta frumvarp fram? Ráðfærði hún sig við Landssamband smábátaeigenda? Fékk hún þar þá skýringu að hún væri eitthvað að auðvelda nýliðun. Auðvitað er það ekki þannig. Það er alveg borðleggjandi að hún er að búa til, hún er að einkavæða grásleppuna og gera þetta framseljanlegt. Hingað til hafa þessi hámörk eða kvótaþröskuldar ekki haldið og ekki einu sinni, frú forseti, þegar komið er að úthlutun byggðakvótans. Það er bara úthlutað jafnvel til fyrirtækja sem eru komin upp fyrir kvótaþakið eins og ekkert sé. Þannig að það að bera það á borð og telja fólki trú um að það sé eitthvað sannleikanum samkvæmt og í raun og veru sé verið að auðvelda nýliðun, það er bara ekki þannig. Það er langt, langt frá því. Það væri áhugavert hvort hæstv. ráðherra hafi t.d. ráðfært sig við einn fremsta vísindamann landsins og hvort hann styðji þetta frumvarp á sviði grásleppurannsókna.

Þá vil ég nefna hér hv. þm. Bjarna Jónsson til sögunnar: Styður hann þetta frumvarp? Ég tel svo varla geta verið. Er það svo? Mér finnst það með ólíkindum að heill þingflokkur geti verið hér á síðasta kjörtímabili að berjast gegn máli og komið svo hér með það í einhverjum hálfgerðum felubúningi eða með einhverjum fegrunaraðgerðum sem ekki halda neinu, að leggja það á borðið og ætla að lögfesta það. Þetta er bara stórundarlegt. Þess vegna ítreka ég spurningu mína, frú forseti: Við hverja ráðfærði hæstv. ráðherra sig? Því að hefði hún ráðfært sig við Landssamband smábátaeigenda væri hún ekki að vaða þá villu sem hún er að gera hér.