154. löggjafarþing — 95. fundur,  15. apr. 2024.

árshátíð Landsvirkjunar.

[15:40]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir svarið. Já, að við skulum gera það sem er til eftirbreytni. Ég býst t.d. við því að eigendur Landsvirkjunar, fólkið í landinu, fyrirtækin í landinu, heimilin í landinu, hefðu jafnvel viljað sjá lækkaðan orkukostnað til sín.Og bara að til að setja þessa 100 millj. kr. partíupphæð í samhengi við það sem við höfum kallað eftir ítrekað hér: 100 milljónir sem hv. þm. Sigmar Guðmundsson er að berjast fyrir til þess að reyna að koma við viðhaldsmeðferð til fárveikustu fíklanna landinu, 100 millj. kr., þær fást ekki hér í gegn. Ríflega 100 milljónir þar sem við gáfum ríkisstjórninni fjögur tækifæri fyrir jólin í fyrra til að segja já við því að styðja við langtfátækasta gamla fólkið fyrir jólin og styðja það með jólabónus en þá voru ekki peningar til. En í stað þess að setja þetta í okkar sameiginlegu sjóði, (Forseti hringir.) ef það er svona mikill peningur í Landsvirkjun, að halda þá tveggja daga partí þar sem meðalkostnaðurinn á starfsmann er hálf milljón króna fyrir tveggja daga partí, (Forseti hringir.) þá er það í rauninni í alla staði síðasta sort og ekki til neinnar eftirbreytni.