132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Efni frá svæðisdeildum á vef Ríkisútvarpsins.

625. mál
[15:02]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Á þskj. 918 hef ég leyft mér að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. menntamálaráðherra sem er um efni frá svæðisdeildum á vef Ríkisútvarpsins:

Fyrirspurnin er svohljóðandi:

Stendur til að hægt verði að hlusta á svæðisfréttir og fleira efni svæðisdeilda Ríkisútvarpsins á vef þess eins og annað innlent efni Ríkisútvarpsins?

Virðulegi forseti. Það vita sennilega margir og nota sér þau miklu þægindi að geta farið inn á vefi Ríkisútvarpsins, Stöðvar 2 eða annarra ljósvakamiðla, fara þar allt að hálfan mánuð aftur í tímann og ná sér í fréttir eða annað efni sem flutt hefur verið, sama hvort það er í útvarpi eða sjónvarpi.

Þetta eru geysilega mikil þægindi og það var ástæðan fyrir því að ég lagði þessa fyrirspurn fram. Sú fyrirspurn, virðulegi forseti, var lögð fram þriðjudaginn 14. mars sl. Síðan gerðist hið ánægjulega að mánudaginn 20. mars var hægt að fara inn á vef Ríkisútvarpsins og inn á það sem kallað er svæðisútvarps Norðurlands á Akureyri og hlusta á vefnum og það gerði ég einmitt.

Þá hljóðaði eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Útvarp Norðurlands heilsar mánudaginn 20. mars. Elín Una Jónsdóttir og Karl Eskil Pálsson lesa norðlenskar fréttir og líta á norðlensk málefni næsta hálftímann eða svo.“

Síðan kom veðurlýsing. Svo þar rétt á eftir, eftir að hið ljúfa stef o.fl. var spilað kom þetta:

„Gott kvöld. Í norðlenskum fréttum er þetta helst.“

Og þar gat ég sem Norðlendingur hlustað á norðlensku fréttirnar á vef Ríkisútvarpsins. Það sem sagt hófst þarna nokkrum dögum eftir að ég lagði þessa fyrirspurn fram og vil eiginlega nota tækifærið hér strax og þakka fyrir hvað vel hefur verið brugðist við. En það eru fleiri svæðisstöðvar. Um leið og ég á þess kost að eiga hér orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um þetta vil ég spyrjast fyrir um þær, því vonandi er þetta bara byrjunin og aðrar svæðisstöðvar Ríkisútvarpsins eins og á Austurlandi, Suðurlandi eða Vestfjörðum komi fljótlega á eftir.

Virðulegi forseti. Í lokin vil ég svo segja að þessi þjónusta Ríkisútvarpsins og ljósvakamiðlanna er til mikillar fyrirmyndar, að hægt sé að hlusta á fréttir úr heimahögum sínum hvar sem er, sama hvort menn eru staddir í Reykjavík, úti í Hong Kong eða vestur í Ameríku.

Spurningu minni hefur því í raun og veru verið svarað hvað þetta varðar en ég spyr um aðrar stöðvar um leið og ég þakka fyrir að svona svakalega vel skuli hafa verið brugðist við að þetta skuli koma aðeins sex dögum eftir að fyrirspurnin var lögð fram.