132. löggjafarþing — 95. fundur,  29. mars 2006.

Efni frá svæðisdeildum á vef Ríkisútvarpsins.

625. mál
[15:05]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Frú forseti. Það er margt til fyrirmyndar hjá Ríkisútvarpinu og sú þjónusta sem er veitt á vefnum er mjög góð og er í sífelldri þróun til þess að koma til móts við það hlutverk sem Ríkisútvarpið stendur fyrir og á að standa fyrir, þ.e. almannaþjónustuhlutverk og menningarhlutverk sem það reynir að rækja og rækta.

Ég hef spurst fyrir hjá Ríkisútvarpinu varðandi þessi málefni og m.a. í tengslum við umræðu sem var hér í vetur en þá barst m.a. athugasemd frá hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni varðandi þessi málefni. Þá kom í ljós að Ríkisútvarpið hefur í nokkurn tíma verið að reyna að þróa sig enn betur og meira inn á þetta svið. Það er ánægjulegt hversu vel hv. þm. Kristján Möller fylgist með, því þjónustan fyrir Norðurland batnaði einmitt töluvert með þessari góðu innkomu þann 20. mars.

Þetta er verið að þróa um allt land og það er tvímælalaust ætlun Ríkisútvarpsins að mjög fljótlega komi svæðisstöðvarnar inn á vefinn og þessa daga standa yfir prófanir sem munu væntanlega stuðla að því að þetta komist sem fyrst inn á vefinn, þessi annars ágæta þjónusta.