135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

afstaða ríkisstjórnarinnar til aðildarumsóknar að ESB.

[15:19]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég hef áður svarað fyrirspurn hér í þingsal um stöðu stjórnarskrármálsins og get endurtekið það að það mál liggur í eins konar dvala í bili. Við höfum ekki tekið upp þráðinn frá því sem frá var horfið í marsmánuði 2007. Ég hef talið hyggilegt að hvíla það mál aðeins vegna þess að engin niðurstaða náðist þá eins og margir muna. Ég hef talið rétt að við mundum huga betur að því máli á vettvangi allra flokka þegar lengra líður á kjörtímabilið. Það er sem sagt ekki komin niðurstaða í það mál.

Hvort stjórnarskrárbreytingar eigi að lúta því lögmáli að um þær verði alger samstaða er svo annað mál. Svo hefur stundum verið og stundum ekki en oftast hefur verið góð samstaða um slíkar breytingar á undanförnum árum. Það er æskilegast en ekki er hægt að lofa því.