135. löggjafarþing — 95. fundur,  28. apr. 2008.

Norðurlandasamningur um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.

577. mál
[15:33]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á Norðurlandasamningi um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð.

Með frumvarpinu er lagt til að heimilt verði að fullgilda samkomulag sem gert var 26. janúar 2006 um breytingar á samningi milli Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð er undirritaður var í Stokkhólmi 6. febrúar 1931. Einnig er lagt til að samkomulagið öðlist lagagildi hér á landi á sama hátt og á við um samninginn sjálfan og fyrri breytingar á honum.

Samkomulagið hefur að geyma reglur um val á lögum í málum er varða fjármál hjóna. Ákvæðin um fjármál hjóna í norræna samningnum um alþjóðleg einkamálaréttarákvæði um hjúskap, ættleiðingu og lögráð hafa verið í gildi óbreytt frá undirritun samningsins í Stokkhólmi 6. febrúar 1931. Breytingar á ýmsum öðrum ákvæðum samningsins hafa á hinn bóginn verið gerðar, þ.e. með samkomulagi samningsríkjanna frá 26. mars 1953, 3. nóvember 1969, 20. nóvember 1973, 25. febrúar 2000 og 6. febrúar 2001. Frá því að norræni samningurinn frá 1931 var gerður hafa orðið breytingar á lögum norrænu ríkjanna um fjármál hjóna og eru þau nú mun ólíkari en þá var þótt byggt sé á svipuðum grundvallarsjónarmiðum.

Meginatriði samkomulagsins eru tvíþætt. Annars vegar er lagt til að ákveðinn aðlögunartími skuli líða að því er varðar beitingu laga nýs búseturíkis hjóna sem flytja frá einu norrænu ríki til annars um fjármál þeirra.

Samkvæmt norræna samningnum eins og hann er nú gilda þær reglur, að þegar hjón flytja frá einu norrænu ríki til annars, gilda lög hins síðarnefnda ríkis um fjármál þeirra þegar eftir flutninginn. Ákvæðum samkomulagsins um tiltekinn aðlögunartíma að því er varðar beitingu laga nýs búseturíkis er m.a. ætlað að koma í veg fyrir að hjón, við þessar aðstæður, komist að því eftir skilnað að ólíkar reglur gildi um fjármál þeirra í nýja búseturíkinu. Er því lagt til í samkomulaginu að ekki skuli beitt lögum þess ríkis sem hjónin fluttu til fyrr en þau hafa búið þar í a.m.k. tvö ár.

Hins vegar er lagt er til að hjón hafi heimild til að semja um val á lögum, þ.e. lögum hvaða norræns ríkis skuli beita um fjármál þeirra. Hjón geta þó einungis samið um að beitt skuli lögum ríkis sem þau hafa tengsl við vegna búsetu sinnar eða vegna þess að þau eiga þar ríkisfang.

Í norræna samningnum eins og hann er nú er slík heimild ekki fyrir hendi. Þessu þykir brýn þörf á að breyta, einkum vegna þess hve lög norrænu þjóðanna um þetta efni hafa breyst á liðnum áratugum og hafa nú að geyma ólíkari reglur en áður var. Heimildir hjóna til að semja um lagaval um þetta efni eru almennt viðurkenndar í alþjóðlegum einkamálarétti nú til dags og eru m.a. heimilaðar samkvæmt Haag-samningi um þetta efni og varðar val á lögum um fjármál hjóna frá 1978.

Virðulegi forseti. Ég hef í meginatriðum gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.