136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

hagsmunir Íslands í loftslagsmálum.

370. mál
[14:05]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Frú forseti. Þessi þingsályktunartillaga gengur út á það að Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gæta ýtrustu hagsmuna Íslands í samningaviðræðum. Allt eins væri hægt að flytja þingsályktunartillögu um það að Íslendingar, nú eða ríkisstjórnin, færu að umferðarlögum. Auðvitað gæta allar ríkisstjórnir ýtrustu hagsmuna þjóðarinnar á erlendum vettvangi. Ég sé ekki tilganginn með fyrri partinum.

Hvað seinni partinn varðar þá gengur hann út á það að við höldum losunarkvótanum 2008–2012. Mér sýnist það sama um þennan seinni lið, þ.e. að tillagan sé allt að því markleysa, að hún sé prófkjörspólitík og lýðskrum. Það má halda því fram. Við höfum 8.000.000 tonna viðbótarkvóta 2008–2012 og það er mat allra sérfræðinga sem ég ræði við að sá kvóti muni halda sér.

Sé það vilji flutningsmanna að kvótinn verði aukinn þá gengur tillagan ekki út á það heldur eingöngu að halda íslenska sérákvæðinu, og það er mat allra sérfræðinga í alþjóðarétti og alþjóðasamningum að svo muni verða. Tillagan gengur ekki út á viðbót, það er svo einfalt. Að því leyti er hún í orðanna hljóðan tilgangslaus markleysa.

Við fáum engar frekari undanþágur. Það er algjörlega ljóst. Kröfur eru gerðar í allri Evrópu, af ESB og alþjóðasamfélaginu, um frekari niðurskurð. Það er jafnljóst. Sérstaklega er kveðið á um það að minnka útblásturinn í stóriðjunni. Það er keppikeflið að stóriðjan noti bestu fáanlegu tækni, samanber BAT-regluna, sem þeir hafa hér á Íslandi komist upp með að gera ekki. Við fáum sem sagt ekki fleiri undanþágur og árið 2027 verður kvótinn settur á markað.

Það er krafa alls staðar, og ég ítreka það, að áliðnaðurinn taki á sig meiri ábyrgð en hann hefur gert til þessa. Ég er hissa á reyndum meðflutningsmönnum tillögunnar í alþjóðarétti og alþjóðasamningum að skrifa upp á tillögur með þessum hætti. Það er illt að mínu mati, og gengur þvert gegn markmiðum Kyoto-bókunarinnar og tilraunum alþjóðasamfélagsins til að draga úr losun, að megintilgangur þessarar tillögu sé að fjölga álverum. Álver hafa haldið uppi rafmagnsverði hér. Þau hafa leitt til þess að ekki er hægt að lækka rafmagnsverð til að mynda til garðyrkjubænda sem er sprotagrein í íslenskum landbúnaði. Það sem verra er, ef á að fara að nýta þessa raforku til álvera þá komum við þar með í veg fyrir að hægt sé að draga úr losuninni með því að nota þessa raforku til umhverfisvænnar starfsemi.

Það er mikill skortur á ódýru rafmagni. Ég nefndi gróðurhúsabændur. Ég get nefnt dæmi sem mundi draga mjög verulega úr losun sem við verðum að einbeita okkur að, og það er til að mynda til fiskiskipaflotans meðan hann er í höfn. Það er til loðnuverksmiðja. Það er hægt að gera þetta með fjölþættum hætti. Grundvöllur þess að okkur takist að draga úr losuninni er að þessi íslenski iðnaður, bændur, garðyrkjubændur sem aðrir, fái raforkuna á lægra verði. Það er okkar meginskylda að draga úr þessari losun. Álverin vinna beinlínis gegn þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í þessum efnum.

Frekar en að karpa um þessa tillögu ættum við hv. þingmenn að huga að því sem getur orðið til þess að draga úr losun. Við eigum þar mikla möguleika. (Gripið fram í.) Ég nefni gróðurhúsaræktun og ég nefni almenningssamgöngur og fleira sem ég hef nefnt hér fyrr í ræðu minni. Tillagan er að mínu mati vanhugsuð og ég hygg að í nefnd muni það koma berlega í ljós.