136. löggjafarþing — 95. fundur,  5. mars 2009.

tollalög, vörugjald og virðisaukaskattur.

365. mál
[15:14]
Horfa

Ólöf Nordal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hingað fyrst og fremst til þess að láta í ljós ánægju mína með frumvarpið. Þar held ég að sé á ferðinni mál sem muni skipta miklu fyrir þá sem eru miklum vandræðum núna vegna gríðarlegrar verðbólgu sem hefur verið og hárra vaxta. Við vitum að þau fyrirtæki sem hafa stundað innflutning eru mjög mörg þrekuð eftir veturinn. Ég tel því að frumvarpið sé mjög gott innlegg inn í þá umræðu og styð það. Við sjálfstæðismenn munum greiða fyrir því eins og hægt er en auðvitað á eftir að skoða þetta betur í nefnd og fulltrúar sjálfstæðismanna í nefndinni mun vissulega hafa skoðanir sínar á þessu. En það slær mig vel að öll reglubundin uppgjörstímabil vegna ársins 2009 séu undir í þessu. Ég held að sé gott.

Mig langar að nefna eitt rétt í lokin um dráttarvextina. Gerð var breyting á lögum um vexti fyrr í vetur til að lækka dráttarvexti. Staðreyndin er samt sú að jafnvel þótt við héldum áfram að lækka vextina þá gerir það ekki mjög mikið fyrir okkur meðan stýrivextir eru svo háir sem þeir eru. Það hlýtur því að vera brýnt verkefni að skapa aðstöðu til þess að stýrivextir Seðlabankans lækki. Þar held ég að við séum öll sammála um hvort sem við erum inni í þessum sal eða úti í þjóðfélaginu að það er brýnasta og mikilvægasta efnahagsaðgerðin við þessar aðstæður sem nú eru.