143. löggjafarþing — 95. fundur,  10. apr. 2014.

áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða.

511. mál
[23:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það hallar nú nokkuð degi. Ég sat á forsetastóli síðastur forseta hér í gærkvöldi og sleit fundi á 12. tímanum. Ég mætti auðvitað til vinnu minnar samkvæmt venju um áttaleytið í morgun og hef verið hér síðan samfellt og reynt í framhjáhlaupi að lesa aðeins í stóru skýrslunni sem kom í dag um sparisjóðina.

Snemma í fyrramálið hefjast mikilvægir sameiginlegir fundir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og efnahags- og viðskiptanefndar, þar sem ég sit, til að fara yfir skýrsluna og síðan í beinu framhaldi, ef að líkum lætur eða kannski með stuttu hléi á milli, hefst fimm klukkustunda umræða um þessa tæplega 2 þús. blaðsíðna skýrslu. Ég held að við verðum aðeins að fara að gæta að okkur hvað við ætlum þingmönnum til undirbúnings til eðlilegrar þátttöku í þeirri umræðu, fyrir utan annað sem mælir eindregið með því að forseti fari að hlusta á þau sjónarmið, þær óskir og þær beiðnir sem fram hafa komið um að við förum að segja þetta gott í bili.