144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

úttekt á erlendum áhrifaþáttum bankahrunsins.

[15:22]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Að sjálfsögðu átti ég við Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands.

Ég veit ekki hversu alvarlega ég á að taka þessari fyrirspurn í raun og veru. Hv. þingmaður kýs að koma hingað upp, grafa undan trúverðugleika eins af þeim sem hefur tekið að sér að vinna verkið, lýsa því í löngu máli hvernig hann sé á rangri pólitískri skoðun fyrir hv. þingmann og þess vegna hljóti þetta allt að vera óskaplega undarlegt. Þetta er ósköp einfalt mál. Ég sá ástæðu til þess að gera þessa úttekt og tek á henni ábyrgð. Ég fæ til þess hæfa stofnun og hún hefur ekki enn þá skilað af sér. Hér er ekki verið að tala um kjarna máls sem er hið gríðarlega tjón sem innlendir aðilar urðu fyrir vegna ráðstafana sem gripið var til á erlendum vettvangi. Það er eins og hv. þingmaður hafi engan áhuga á því, en það er aðalatriði málsins. Svo geta menn reynt að nota þennan ræðustól til þess að vega að mönnum úti í þjóðfélaginu sem geta ekki komið hingað og varið sig og sett ráðherra eða aðra þingmenn í þá stöðu að gera það fyrir þá. (Forseti hringir.) Ég ætla ekki að taka þátt í þeim skrípaleik með þessum hv. þingmanni.