144. löggjafarþing — 95. fundur,  27. apr. 2015.

þjónustusamningur við Samtökin ´78.

711. mál
[16:05]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Ég verð að viðurkenna að mér finnst þessi dagskrárliður alltaf svolítið skondinn. Það eru bornar fram spurningar til ráðherra, ráðherra kemur og heldur langa ræðu um hvernig hlutirnir eru — en svarar ekki spurningunum.

Ég held að við séum öll sammála, og ég held að ráðherrann sé engin undantekning, um hið gífurlega mikla hlutverk sem Samtökin ´78 hafa leikið í þjóðfélagi okkar síðan 1978 og alltaf með meiri og meiri árangri. Ráðherrann kemur hingað og þylur það upp að gerðir séu starfssamningar til eins eða tveggja ára, menn þurfi að skila skýrslu og allt gott með það. Við hljótum öll að sjá muninn á því að vera með þjónustusamning til þriggja eða fimm ára eða fá styrk í eitt ár. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Af hverju er hún á móti því að gera þjónustusamning við Samtökin ´78?