149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

refsiaðgerðir vegna bílaleigunnar Procar.

[15:39]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Eins og við hæstv. ráðherra erum sammála um er mikilvægt í ferðaþjónustunni líkt og annars staðar, að það sé traust gagnvart fyrirtækjum í greininni. Það eru rúmir tveir mánuðir síðan fréttaskýringaþátturinn Kveikur upplýsti að starfsmenn bílaleigunnar Procar hefðu lækkað kílómetrastöðu í 100 bílum fyrirtækisins, hið minnsta. Það er auðvitað alvarlegt. Er skoðun á málinu vissulega enn í gangi og bíða skiljanlega margir eftir viðbrögðum vegna þessa. En í fjölmiðlum var haft eftir hæstv. ráðherra varðandi þetta að hún teldi það mjög íþyngjandi að svipta fyrirtæki starfsleyfi.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að skýra hvað hún meini með þeim orðum.