149. löggjafarþing — 95. fundur,  29. apr. 2019.

refsiaðgerðir vegna bílaleigunnar Procar.

[15:42]
Horfa

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Það er vissulega mikilvægt að passa upp á hvort tveggja, að opinbera eftirlitið gangi ekki of langt og að viðeigandi viðurlög séu til staðar til að stuðla að þeirri sanngjörnu samkeppni og því trausti sem við þurfum að hafa á markaðnum. Hæstv. ráðherra nefnir hér að ekki megi ganga of langt í eftirliti í hvert skipti sem eitthvað kemur upp á. Svo virðist sem við höfum stundum misst okkur í því, af því að við mælumst með gríðarlega flókið regluverk á mælikvarða OECD. Ég fagna þess vegna því verkefni sem hæstv. ráðherra mun fara í með OECD varðandi einföldun regluverks af því að það er alveg ljóst að mikið er undir fyrir íslenskt atvinnulíf hvað varðar samkeppnishæfni, að geta keppt við aðra, að regluverk og eftirlit sé ekki of flókið og íþyngjandi eins og það er sem við búum við í dag.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra: Hver er stefnan varðandi það? Hverju á að ná fram með þessari vinnu? Er möguleiki á að við munum búa við einfaldara regluverk, minna flækjustig og meiri tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki, bæði (Forseti hringir.) varðandi samkeppnishæfni, og auðvitað einnig nýsköpun, sem er málaflokkur sem ráðherrann fer fyrir?