150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

brúarlán og staða Icelandair.

[10:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Fyrst varðandi stöðu brúarlánanna. Það er rétt sem hv. þingmaður segir að það er nokkuð um liðið síðan Alþingi afgreiddi lagalegan grundvöll þess úrræðis og það er sömuleiðis talsvert síðan að ég undirritaði samning við Seðlabankann um framkvæmd þessa úrræðis. En nú er í lokafrágangi samkomulag milli Seðlabankans og fjármálafyrirtækjanna um þann enda málsins. Ég get svo sem sagt fyrir mitt leyti að það er óheppilegt að þetta hafi tekið þennan tíma en þó hefur kannski ekki orðið mikið tjón af því. Í fyrsta lagi hefur tíminn nýst ágætlega til að sjá betur hvernig úrræðið geti best nýst. Ég vil láta þess getið að við höfum í samningi við Seðlabankann haft svigrúm fyrir lengri lánatíma en þann þrönga 18 mánaða ramma sem upphaflega var lagt upp með og ég hyggst beita mér fyrir því að lánatíminn verði lengdur. Það held ég að muni gagnast miðað við það hvernig aðstæður hafa þróast frá því að málið var hér til umræðu í þinginu.

Svo er auðvitað ekki hægt að horfa fram hjá því að þau fyrirtæki sem hafa horft til þessa úrræðis hafa auðvitað notið góðs af öðru. Þau fengu gjaldfresti opinberra gjalda, hafa verið í hlutastarfaleiðinni og langt yfir 90% fyrirtækja sem hafa óskað eftir greiðslufresti hjá fjármálafyrirtækjum hafa fengið greiðslufresti. Það er því ekki eins og fyrirtækin hafi verið í frjálsu falli þrátt fyrir að leiðin hafi ekki komið til framkvæmda heldur hafa þau einmitt notið skjóls bæði af aðgerðum ríkisstjórnarinnar og Alþingis, eins Seðlabankans sem hefur aukið svigrúm bankanna til að veita þeim fyrirgreiðslu og þau hafa verið að nýta sér þessi úrræði eins og allar tölur bera með sér. Þannig hefur ekkert sérstakt tjón skapast af því þó að það hafi tekið aðeins lengri tíma að ganga frá lausum endum.

En ég verð að nota síðara svar til að bregðast við spurningu um Icelandair.