150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

opinber stuðningur til fjárfestinga í sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum.

711. mál
[12:09]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski fyrst rétt að segja að þetta er mjög jákvætt frumvarp að mörgu leyti. Það hefur tilfinnanlega vantað vísifjármagn á Íslandi mjög lengi og sprotafyrirtæki hafa átt í erfiðleikum með að lokka það til sín í einhverjum tilfellum. Þetta er bara mikil og góð innspýting inn í það umhverfi þannig að ég hlakka til að sjá hvað þessi sjóður nær að gera. En það eru samt nokkur atriði í frumvarpinu sem við þurfum að fara yfir og munum gera í efnahags- og viðskiptanefnd. Það er einna helst 3. gr. sem angrar mig en samkvæmt henni á reksturinn í rauninni að vera nokkurn veginn settur í hendur einkaaðila. Þá fer maður að velta fyrir sér hvort þeir einkaaðilar gætu ekki endað með því að hafa einhverja hagsmuni sem er þá verið að þjónusta í rauninni með því að veita þeim slíkan samning, eða hvort ætti ekki að nýta frekar þá þekkingu sem er til staðar innan kerfisins í dag, m.a. hjá Rannís. Þar er til þekking á umhverfinu. Maður hefði haldið að til þess að koma þessu upp sem allra hraðast hefði verið fljótlegra að nýta það stofnanaumhverfi sem er til, jafnvel þó að hægt sé að koma af stað öðrum strúktúr að lokum. Það að nýta stofnanaumhverfið sem er til gæti leyft okkur að fara hraðar af stað, en það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að mikil þörf er á sjóðnum og það að koma honum upp sem allra fyrst ætti að vera ákveðið lykilatriði.