150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

ársreikningar og endurskoðendur og endurskoðun .

721. mál
[13:15]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur og endurskoðun, gagnsæi stærri kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Markmið frumvarpsins er að auka traust á íslensku atvinnulífi og tryggja gagnsæi í upplýsingagjöf fyrirtækja sem almennt má telja að séu þjóðhagslega mikilvæg og varða hagsmuni almennings. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á I. kafla laga um ársreikninga, nr. 3/2006, og I. kafla laga um endurskoðendur og endurskoðun, nr. 94/2019, þar sem finna má skilgreiningu á einingu tengdri almannahagsmunum. Einnig eru gerðar breytingar á VI. kafla laga um ársreikninga, er lúta að upplýsingum í skýrslu stjórnar. Þá er í frumvarpinu lögð til breyting á X. kafla þeirra laga, er lýtur að skyldu ársreikningaskrár til að birta ársreikninga félaga gjaldfrjálst.

Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að auka traust á íslensku atvinnulífi, m.a. með því að gera ríkari kröfur um gagnsæi í rekstri stærri kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Verði frumvarpið að lögum munu tiltekin sjávarútvegsfyrirtæki, stóriðju- og orkufyrirtæki, flugfélög, fjarskiptafélög og skipafélög sem stunda millilandaflutninga, samkvæmt nánari afmörkun í lögum, einnig teljast einingar tengdar almannahagsmunum. Frumvarpið leitast því við að undirstrika þjóðhagslegt mikilvægi slíkra félaga og auka þær kröfur sem gerðar eru til þeirra.

Með frumvarpinu er einnig brugðist við tilmælum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sem hvatt hefur íslensk stjórnvöld til að auka gagnsæi í rekstri stærri fyrirtækja. Í frumvarpinu er gerð tillaga að breyttu orðalagi er lýtur að þeim kröfum sem gerðar eru til skýrslu stjórnar um árangur, áhættu og óvissuþætti. Einnig að allar einingar tengdar almannahagsmunum skuli árlega birta yfirlýsingu um stjórnarhætti sína í sérstökum kafla í skýrslu stjórnar auk þess að taka af allan vafa um hvaða félög skuli láta ófjárhagslegar upplýsingar fylgja í yfirliti með skýrslu stjórnar. Auk þess er með frumvarpinu lagt til að heimilt verði að birta í gjaldfrjálsri og rafrænni birtingu á vef Skattsins ársreikninga allra þeirra félaga sem skila ársreikningi til opinberrar birtingar. Með þeirri breytingu er m.a. ætlunin að auka aðgengi almennings að upplýsingum sem félögum er skylt að útlista í ársreikningi. Eðlilegt þykir að almenningur hafi greiðan aðgang að slíkum upplýsingum. Greiðari aðgangur að ársreikningum er til þess fallinn að auka aðhald með rekstri félaga, stuðla að upplýstri umræðu og efla þannig traust almennings.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar.