150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

barnalög.

707. mál
[14:26]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég ætla eins og hv. þm. Helga Vala Helgadóttir að óska hæstv. dómsmálaráðherra til hamingju með að vera að mæla fyrir þessu frumvarpi. Ég tek undir það hversu mikilvægt frumvarpið er. Ég hef haldið nokkrar ræður síðan ég kom inn á þing um stöðu fjölskyldna þar sem barn býr á tveimur heimilum og þetta er mikilvægt skref. En þetta er alls ekki lausnin á öllum málum, eins og ágætlega hefur verið farið yfir, og ég vona svo innilega að þinginu hlotnist að afgreiða það fljótt og vel því að það skipti mjög miklu máli.

Eins og kemur ágætlega fram í greinargerð með frumvarpinu þá er þetta auðvitað langur vegur sem búið er að fara og þræða hér í gegnum þingsályktanir og starfshópa og samstarf milli mismunandi ráðuneyta. Þess vegna ætla ég að leyfa mér í ræðunni að fara líka út í mál sem ég hef nefnt einhvern tímann áður og skrifað um sem koma kannski ekki beint inn á þetta frumvarp en snertir lífsgæði barna og fjölskyldna í landinu. Við virðumst eiga svo erfitt með að ná utan um þetta. Hér voru nefnd áðan málefni fatlaðra barna eða heimila þar sem barn býr við einhvers konar fötlun. Þá ertu kominn með velferðarráðuneytið. Það er ágætlega tekið á því í greinargerðinni hvað þarf að ræða við mörg ráðuneyti og breyta lögum til að tryggja að fullu þau réttindi sem börn og fjölskyldur eiga. Það eru öll ráðuneyti fyrir utan forsætisráðuneyti og atvinnuvegaráðuneyti undir og það er fjöldi stofnana sem heyra undir öll þessi ráðuneyti. Það gerir málið svolítið flókið hjá okkur.

Mér finnst oft þegar umræða skapast um þessi mál, þ.e. sameiginlega forsjá sem ég held að hafi verið mjög skynsamleg breyting á sínum tíma, að hún snúist svolítið um réttindi foreldra og að báðir foreldrarnir eigi rétt. Ég vil vissulega leggja fyrst og fremst áherslu á réttindi barnanna en ekki síður skyldur foreldranna. Það er nefnilega þannig að þeim ágætu réttindum foreldra að vera foreldri fylgja miklar skyldur og okkur virðist ekki hafa tekist nægilega vel upp með það að gera foreldrum kleift að uppfylla skyldur sínar þegar foreldrar skilja og búa hvort á sínu heimilinu. Það er ekki bara að það vanti að bæta lög, þó að ég held að þetta frumvarp sé vissulega til bóta, heldur er þetta oft tæknilegur vandi úti í kerfunum okkar. Ég ætla sérstaklega að nefna Þjóðskrá í þessu samhengi sem fyrir mörgum áratugum bjó til kerfi og ákvað að það væri sniðugt að setja númer á fjölskyldur í landinu. Einhverra hluta vegna hafa flestar aðrar stofnanir sem hafa tekið við upplýsingum frá Þjóðskrá ákveðið að nota þetta ágæta fjölskyldunúmer sem eitthvert alfa og omega í að keyra kerfi sín áfram. Þetta hefur valdið því að upplýsingar um börn koma aðeins inn á lögheimili barnsins, sem er bara hjá öðru foreldrinu, þrátt fyrir að um sé að ræða foreldra með sameiginlega forsjá. En þó er ekki einu sinni víst að lögheimilisforeldri fái bréfið um barnið sitt. Það gæti verið maki lögheimilisforeldrisins ef svo vill til að makinn sé eldri og kennitalan þar af leiðandi sýni eldri aðilann. Þetta er algjörlega fáránlegt. Ég á hér eina fyrirspurn á hæstv. heilbrigðisráðherra um upplýsingar sem Sjúkratryggingar hafa sent út sem ættu að varða persónuvernd barna, sem fara heim til annars foreldris á lögheimili sem er þó ekki blóðforeldri viðkomandi og hvorugt foreldranna fær upplýsingar um þetta.

Afsakið, ég er aðeins að fara út fyrir það sem er í frumvarpinu, en ég vil ekki síst að brýna hæstv. ráðherra áfram í þessari vinnu því að þetta mál er mikilvægt. Það þarf einhver að halda utan um þessi mál í öllum kerfunum okkar vegna þess að þau eru úti um allt, í öllum ráðuneytum og hjá svo mörgum stofnunum. Ég veit að með þeim breytingum sem gerðar voru á tölvukerfi Þjóðskrár átti að laga þetta og vonandi er það búið. En það er ekki nóg með að kerfið þar þurfi að breytast heldur þurfa allir sem taka við upplýsingum líka að breyta kerfunum sínum og verklagi. Það er auðvitað algjörlega út úr kú að þeir foreldrar sem fara með forsjá barna fái ekki upplýsingar beint til sín og auðvitað ættum við að geta leyst stóran hluta af þessu rafrænt í dag.

Ég vildi leggja sérstaklega áherslu á þetta og brýna ráðherra áfram í þessum mikilvægu málum og jafnframt brýna þingið í að klára þetta mál sem er til mikilla bóta og skiptir miklu máli. Það er vissulega mikilvægt púsl í þetta púsluspil. En við megum ekki gleyma því að vera stöðugt vakandi yfir réttindum barna og ekki síst skyldum foreldra og hvernig við gerum foreldrum kleift að uppfylla skyldur sínar.