150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

708. mál
[15:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég hef vissulega skoðun á kirkjujarðasamkomulaginu sem felur í sér ákveðna tilfærslu á jörðum frá kirkjunni til ríkisins. Það var um langan tíma reynt að komast að því hvaða jarðir þetta væru og hvert verðmætamat þeirra jarða væri. Árið 1992 var gefin út skýrsla um eignir kirkjunnar fram til ársins 1984 þar sem tekið var saman fasteignamat og ýmislegt varðandi það hversu mikils virði þær kirkjujarðir voru sem eftir voru og er ekki sannanlega búið að selja á einn veg eða annan til handa prestlaunasjóði og ýmsu slíku. Upphæðin þar hljómaði upp á milljarða á þeim tíma, á verðgildi þess árs, sem er uppfært um 3 milljarðar eða eitthvað svoleiðis, ég man það ekki alveg. Skoðun mín á því, bara út frá þeim gögnum sem við höfum aðgang að, er að við séum augljóslega búin að greiða upp kirkjujarðasamkomulagið. Ég byggi skoðun mína á þeim gögnum og það eru ekki til gögn sem vefengja þau. Ég var bara að bera saman upphæðir um það sem við höfum greitt í kirkjujarðasamkomulagið og þá upphæð sem er að finna í skýrslunni sem kom út árið 1992. Þetta eru bestu gögnin sem við höfum. Þegar allt kemur til alls er það samt óvefengjanlegt að það er endanlegt virði á þessum jörðum. Þegar maður spyr framkvæmdarvaldið hver áhvílandi skuld sé á jörðum, sem voru yfirfærðar frá kirkjunni til ríkisins á þessum árum og við samkomulagið 1997 sem við erum að greiða upp, þá koma engin svör. Þau yfirvöld vita það ekki. Þau eiga samt að skrá það samkvæmt lögum um opinber fjármál (Forseti hringir.) en svara ekki þegar fjárlaganefnd spyr. Þess vegna hef ég áhyggjur af eftirliti með framkvæmd fjárlaga varðandi það fé (Forseti hringir.) sem er að fara til kirkjunnar. Þess vegna hef ég áhyggjur af stjórnarskrárákvæðinu hvað það varðar (Forseti hringir.) að við séum í rauninni að brjóta dálítið upp á stjórnarskrána. Þó að við spyrjum og reynum að fylgja eftir þeim fjárheimildum (Forseti hringir.) og sinna eftirlitsskyldu okkar þá fáum við ekki svör.

(Forseti (HHG): Þrátt fyrir stóráhugaverðar umræður verður forseti að minna hv. þingmenn á að gæta að tímamörkum.)