150. löggjafarþing — 95. fundur,  30. apr. 2020.

breyting á ýmsum lögum á sviði sjávarútvegs, fiskeldis, lax- og silungsveiði vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu.

713. mál
[16:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. 19. gr. frumvarpsins á þskj. 1222 er um brottfall ýmissa laga. Þar er að finna sex lög, t.d. lög um gelding húsdýra og lög um breytingu á lausaskuldum bænda, sem eru ekki bara gömul og úr sér gengin heldur tóm lög með engum lagagreinum. Í þeim er ekki neitt. Það er hluti af frumvarpi Pírata um að fella brott 208 tóm lög. Fram að þessu hefur fjármála- og efnahagsráðherra lagt fram frumvarp þar sem hann felldi brott sinn hluta af tómum lögum. Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur gert slíkt hið sama og núna tekur við sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þetta er bara yndislegt. Þetta er þriðja ríkisstjórnarmálið í dag þar sem tekið er úr þingmálum Pírata. Það er mjög ánægjulegt fyrir Pírata að ná að koma málum sínum í gegn óbeint í gegnum ríkisstjórnina.

Það sem mér finnst áhugavert er af hverju í ósköpunum þessi mál Pírata stoppa alltaf í nefnd ef þau verða svo bara hárreytt inn í ríkisstjórnarmál á næsta þingi.