Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra fór yfir hvað hún teldi mikilvægustu tíðindi í þessari fjármálaáætlun. Nú ætla ég að fara yfir það hvað ég tel vera mikilvægustu tíðindin í þessari fjármálaáætlun. Það er hvað er gert strax og hvað er látið bíða. Fjármálaáætlun sýnir nefnilega forgangsröðun ríkisstjórnarinnar og það segir sína sögu hvað ríkisstjórnin gerir strax og hvað er látið bíða.

Skoðum aðeins þessa forgangsröðun. Gjaldahækkanir á almenning, þær komu strax. Vaxtahækkanir án mótvægisaðgerða komu strax. Helmingurinn á skattafslætti vegna framkvæmda við íbúðarhúsnæði strax og verðbólgan bítur auðvitað líka strax. Þannig að aðhaldið er strax tekið út af almenningi, venjulegu launafólki.

En hvað af boðuðum aðgerðum telur ríkisstjórnin að megi bíða? Í stuttu máli allt sem snýr að eigendum fjármagns og fyrirtækja. Tímabundin 1% hækkun á tekjuskatti fyrirtækja er látin bíða, kemur ekki í kassann fyrr en 2023 og hefur augljóslega engin áhrif til að dempa verðbólgu í dag. Álag á veiðigjöld útgerðanna, nei, það á að bíða til ársins 2028. Margboðuð og margfrestuð hækkun á fiskeldisgjaldi, allt slíkt má líka bíða. En leigubremsa til að verja almenning, það á að bíða og aukin húsnæðisuppbygging á að bíða og bíða — alltaf sama sagan. Það eru stór orð og fögur fyrirheit sem reynist svo enginn fótur fyrir þegar kemur að fjárlögum. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra út í þessa forgangsröðun: Hvers vegna er allt aðhaldið tekið út á almenningi strax en aðhaldið sem tekur til fjármagnseigenda er látið bíða?