Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:40]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er flókið að eiga við það þegar spár standast ekki. Ég minni bara á að í forsendum fjárlaga var gert ráð fyrir 4,9% verðbólgu á árinu 2023. Bætur almannatrygginga voru hækkaðir um 6% um áramót til að mæta þeirri þróun, auk 1,1% viðbótarhækkunar sem ríkisstjórnin ákvað annars vegar til samræmis við almenna kaupmáttaraukningu og hins vegar til að mæta því að verðbólga á árinu 2022 reyndist meiri en forsendur gerðu ráð fyrir. Þannig að auðvitað erum við alltaf að eiga við spár. Það sem ég hef verið að benda á í máli mínu hér er að við höfum brugðist við og við höfum gert það fyrr en lög kveða á um vegna þess að við höfum mjög einbeittan vilja til að reyna að verja kjör þessa hóps. Að sjálfsögðu er eitt af markmiðum þeirra breytinga sem Alþingi fær góðan tíma til að fjalla um, því að það er mjög mikilvægt að Alþingi fái góðan tíma til að vanda vel til verka, að bæta kjör hinna verst settu í þessum hópi. Ég held að það skipti mjög miklu máli að þetta er í raun og veru í fyrsta sinn sem við sjáum fjármagn í fjármálaáætlun þar sem er búið að reyna að áætla fyrir raunverulegum kostnaði af kerfisbreytingu. Þetta eru því stórtíðindi.

Mig langar aðeins að nefna heilbrigðismálin því að hv. þingmaður kom inn á þau í fyrri fyrirspurn. Ég minni á að þetta er stærsti útgjaldaflokkur ríkissjóðs. Útgjöld nema samtals 1.857 milljörðum kr. á tímabili áætlunarinnar. Framlög til rekstrar og tilfærslna hækka um rúma 32 milljarða á milli áranna 2023 og 2028 en auðvitað eykst líka fjárfestingin. Þar munar mest um byggingu nýs Landspítala sem ég kom líka að í inngangsorðum mínum. Framlög til framkvæmdarinnar á tíma áætlunarinnar nema yfir 126 milljörðum kr. sem er umtalsvert hærri fjárhæð en gert var ráð fyrir í gildandi fjármálaáætlun. Fyrst og fremst skýrist það raunar af breyttri framsetningu vegna þess að kostnaður er nú birtur á verðlagi hvers árs í stað fasts verðlags eins og áður. Þetta sýnir líka þann einbeitta vilja að gera betur í þessum málaflokki og tryggja bætt starfskjör (Forseti hringir.) og starfsaðstæður heilbrigðisstarfsfólks.