Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[14:50]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég taldi mig hafa svarað þessari spurningu mjög skýrt hér áðan, þ.e. að augljóslega tel ég ekki að fordómar vegna ýmissa þátta sem taldir eru upp í mismununarlöggjöfinni séu ekki til staðar á Íslandi. Ég nefndi það einnig sérstaklega áðan að ástæðan fyrir því að ég er að leggja hér fram aðgerðaáætlun um aðgerðir gegn hatursorðræðu m.a. er til að auka fræðslu og meðvitund. Það er auðvitað hlutverk Jafnréttisstofu, sem hefur eftirlit með þessum lögum, að sinna fræðslu og vitundarvakningu um þessa löggjöf. Það er mikilvægt að rannsaka hvort það eru einhverjar þær ástæður eða hindranir fyrir hendi, sem hv. þingmaður vísar til, sem valda því að fólk leiti ekki réttar síns. Í þessu samhengi nefndi ég mannréttindastofnun. Hv. þingmaður spyr: Af hverju er þetta ekki löngu gert? Ja, málaflokkur mannréttinda fór yfir til forsætisráðuneytisins 2021. Mín niðurstaða var að fara ekki strax fram með frumvarp um stofnun þó að það væri yfirlýst í stjórnarsáttmála heldur þyrfti að kortleggja málið áður. Það er það sem við höfum unnið að núna í heilt ár, kortlagningu á stöðu mannréttinda á Íslandi, sem við erum að gera í gegnum grænbók sem hefur verið birt, gríðarlega gott samtal og samráð sem átti sér stað í kringum þá vinnu. Þar voru dregnar fram tvær áherslur sem líklegastar þóttu til að skila mestum ávinningi. Í raun má því segja að það hafi komið viðbótarverðmæti út úr þeirri vinnu, þ.e. niðurstaðan varð að það væri ekki nægjanlegt að setja á laggirnar stofnun, þó að það sé mjög mikilvægt og við fáum frumvarp um það hér til umfjöllunar í haust, heldur þyrftum við líka að fá landsáætlun um mannréttindi sem við höfum ekki haft hingað til. Við getum alltaf sagt: Af hverju er þetta ekki allt tilbúið? Það sem ég get bara einfaldlega sagt er að ég hef unnið að þessum málaflokki síðan hann kom yfir til mín og ég tel að það séu mikil tækifæri til að gera betur. Ég held að þetta muni breyta mjög orðræðu og einmitt vitund um réttindi þegar við erum komin bæði með þessa stofnun en ekki síður landsáætlunina, sem skiptir miklu máli og verður unnin sömuleiðis í miklu samráði.