Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:00]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V):

Forseti. Samhengið á milli þess að fjármálaráðherra dragi núna úr hallarekstri og að verðbólga og vextir lækki er augljóst og um þetta virðast nánast allir sammála, allir sem málið hafa skoðað. Verðbólgan er í dag stærsta einstaka málið fyrir venjulegt fólk í landinu, stærsti óvinurinn, en fjármálaáætlunin er því miður ekki sannfærandi um aðgerðir gegn þessum óvini. Umsögn fjármálaráðs er skýr um þetta, Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur segir að það sé einfaldlega ekki verið að bregðast við stöðunni í dag heldur talað um einhverjar mögulegar breytingar í framtíðinni, ASÍ hefur talað um að of lítið sé gert til að verja heimilin, Félag atvinnurekenda talar um að aðhaldið sé of lítið sem og Samtök atvinnulífsins. Allir eru að tala um að það sé of lítið gert og of seint, allir. Það er hætta á því að þetta aðgerðaleysi muni kosta heimili landsins í formi áframhaldandi verðbólgu. Það mun þá kosta ungt fólk á húsnæðismarkaði, millistéttina, barnafjölskyldur og síðast en ekki síst leigjendur. Þessa stóru mynd ríkisfjármálanna og aðgerðir ríkisins þarf að setja í samhengi við daglegt líf fólks. Aldrei hafa fleiri keypt sér sína fyrstu íbúð en á árinu 2020 og 2021 þegar aðstæður voru góðar og vextir lágir. Tveimur árum seinna þekkjum við stöðuna, verðbólgan tæp 10%, stýrivextir 7,5. Það er ekki búist við því að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu náist fyrr en 2027. Það er erfiðara en áður fyrir ungt fólk í dag að eignast sína fyrstu íbúð, húsnæðislánin miklu dýrari, greiðslumat þyngra. Verðbólgan bítur alltaf þá fastast sem veikast stóðu fyrir sem og yngra fólkið. Það er talað um það núna að verja þá sem veikast standa en eftir stendur þá að það verður millistéttin sem tekur á sig verðbólguna og vaxtahækkanir af fullum þunga.

Ég spyr hæstv. forsætisráðherra: Sér hún fyrir sér einhverjar frekari aðgerðir til að vinna gegn verðbólgu? Er öll þessi gagnrýni allra þessara aðila á misskilningi byggð?