Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Allir segja hið sama, segir hv. þingmaður, nema kannski þeir sem vilja meiri útgjöld á tilteknum sviðum, þannig að ég er ekki viss um að það sé alveg rétt. En vissulega er gagnrýni í umsögn fjármálaráðs. Vissulega birtist sú sýn þar að hraðar hefði átt að draga úr halla ríkissjóðs eftir faraldurinn. Ég ætla bara að segja það hér að ég tel þá leið sem við höfum valið vera skynsamlega leið. Ég tel að hún tryggi nauðsynlegt jafnvægi milli aðhalds og aðgerða til að hemja þenslu í núverandi aðstæðum og hins félagslega stöðugleika sem er svo brýnt að tryggja, því við getum ekki horft á fjármálaáætlun stjórnvalda eingöngu út frá sjónarmiði um efnahagslegan stöðugleika. Við þurfum að horfa á heilbrigðiskerfið, sem er búið að vera að ganga í gegnum gríðarlegt álagspróf, við þurfum að horfa á menntakerfið og velferðarkerfið. Við skulum ekki gleyma því að vissulega tók ríkissjóður á sig miklar byrðar í heimsfaraldri og vissulega erum við í halla, eins og ég fór svo sem yfir í inngangsorðum mínum, en það breytir því ekki að viðspyrnan hefur verið hraðari en spáð hefur verið. Við stefnum í rétta átt en ég held líka að það sé mikilvægt að við förum varlega, ekki síst þegar kemur að þessum grunnkerfum. Mér finnst að við þurfum að skoða þær ábendingar sem fjármálaráð kemur með varðandi hlutverk sveitarfélaga í opinberum fjármálum og ég tel fulla ástæðu til að fjárlaganefnd og Alþingi taki þær til frekari umræðu og skoðunar. Auðvitað er mikilvægt síðan að meta lögin heildstætt á einhverjum tímapunkti og hvernig þau hafa þjónað tilgangi sínum.

Hv. þingmaður nefnir sérstaklega húsnæðismálin og ég skil vel þau sjónarmið sem hún fer yfir í sínu máli. Það breytir því ekki að ríkið hefur ekki í mörg ár beitt sér jafn mikið á húsnæðismarkaði og á undanförnum árum þar sem við höfum verið að setja fram stofnframlögin þannig að þriðjungur nýrra íbúða á undanförnum árum hefur verið byggður í gegnum aðgerðir stjórnvalda, þar sem við jukum húsnæðisstuðninginn, (Forseti hringir.) eins og kom fram líka áðan, þar sem við höfum verið að beita okkur markvisst til að tryggja betur (Forseti hringir.) félagslegar lausnir á húsnæðismarkaði og koma betur til móts við einmitt (Forseti hringir.) þau sem standa höllum fæti á þessum markaði sem hefur verið þungur.