Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:25]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina sem var eðli málsins samkvæmt mjög stutt — skammur tími. Það er komin fram umsögn frá Landhelgisgæslu Íslands, sem er okkar stóri öryggisgæsluaðili á Íslandi og hefur víðtækra lögbundinna verkefna að gæta, sem segir

„Það voru því sár vonbrigði að sjá að í framlagðri tillögu að fjármálaáætlun 2024–2028 er ekki gert ráð fyrir neinum viðbótum til LHG, hvorki til að stofnunin geti staðið undir núverandi rekstri, né til eflingar viðhalds og reksturs, orkuskipta eða leigukostnaðar þyrlna í kjölfar komandi útboðs. Þrátt fyrir að fram komi að aðhaldskrafa á löggæslustofnanir sé felld tímabundið niður þá virðist löggæslustofnunin Landhelgisgæsla Íslands ekki falla undir þá skilgreiningu í fjármálaáætluninni.“

Það vekur athygli mína að það er búið að taka út úr markmiðssetningarkafla Landhelgisgæslunnar allt sem varðar almannaöryggi, löggæslu og eftirlit í auðlindasögu Íslands, það sem varðar flug. Ekkert um eftirlit skipa, ekkert um eftirlit loftfara. Þetta er skýr breyting frá fjármálaáætlun í fyrra. Þá er líka búið að taka út úr texta fjármálaáætlunar það sem kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar varðandi flugið, að það þyrfti að auka viðveru TF-Sifjar á Íslandi. Ég spyr hæstv. ráðherra: Ætlar hann að taka út flugið sem þennan öryggisþátt og eftirlitsþátt? Er það rétt, sem heyrst hefur, að hann hafi sagt það á fundi um helgina að það væri ekki búið að afturkalla söluna á TF-SIF og stæði ekki til?