Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 95. fundur,  18. apr. 2023.

fjármálaáætlun fyrir árin 2024--2028.

894. mál
[15:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek bara aftur undir með hv. þingmanni þegar hann segir að það þurfi að vanda til undirbúnings allra skipulagsbreytinga. Það gefur augaleið. Það þarf einmitt að gera sér grein fyrir því hvert þú ert að stefna og hvað þú ert að gera. En þótt ég sé nú svona í eðli mínu frekar íhaldssamur maður og komi úr þessum ágæta íhaldsflokki þá er það þannig að við verðum auðvitað að horfa til þeirrar þróunar og þeirra breytinga sem eru að verða í umhverfinu. Og þær eru gríðarlegar. Auðvitað verðum við að nýta okkur þær til að hagræða í rekstri ríkisins, alveg eins og við erum að gera alls staðar annars staðar. Til að mynda leiðir öll sú bylting sem hefur orðið í stafrænni þróun og rafrænni þjónustu auðvitað til mikils sparnaðar en ekki bara það heldur einnig til mikillar og bættrar þjónustu við borgarana í landinu. Það er alveg rétt að þau hafa ekki aukist mikið eða kannski ekki með fullnægjandi hætti miðað við núverandi rekstur Gæslunnar, framlögin þangað. Það hefur samt sem áður orðið umtalsverð aukning. Landhelgisgæslan hefur aldrei haft eins mikið fé til ráðstöfunar og hún hefur í dag — aldrei. Ég er þar í þessari úttekt, ég er þar í þessari stefnumótun, ég er úti í miðri á í því. Ég tel það vera grunninn og vera ábyrgð okkar sem berum ábyrgð á framkvæmdunum að við undirbúum þetta það vel að við getum rökstutt með fullnægjandi hætti í hvað við þurfum fjármagnið. Það tókst okkur að gera í lögreglumálum. Á síðasta ári og fyrir þetta ár erum við með aukningu í löggæslumál upp á 1,6 milljarða. Við erum að fara í eitthvert stærsta átak í eflingu löggæslu, rannsókn og saksókn sem farið hefur verið í, alla vega á síðari áratugum. Það sama á við um fangelsin. Þar erum við búin að fá verulega aukningu. Við erum búin að fá heimild til að stækka og fjölga rýmum í opnum fangelsum og við erum með framtíðaráform um að stækka á Kvíabryggju og byggja þar upp. Við erum að fara af stað í rúmlega 2 milljarða framkvæmd (Forseti hringir.) á Litla-Hrauni. Þannig að það eru mjög góðir hlutir að gerast á þeim vettvangi einnig. (Forseti hringir.) Þessi málefni eru því vissulega búin að fá verulega miklar innspýtingar núna á þessum stutta tíma og ég fagna því.